Markaðsvirði hlutabréfa Berkshire Hathaway, fjárfestingafélags Warren Buffet, í Apple var bókfært á 69,9 milljarða Bandaríkjadala í lok september samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins.
Samkvæmt The Wall Street Journal þýðir það að Berkshire seldi um 25% af 400 milljón hlutunum sem félagið átti í Apple í upphafi þriðja ársfjórðungs.
Fjárfestingafélagið átti um 900 milljón hluti í Apple í árslok 2023 en Buffet hefur verið hægt og rólega að minnka við sig í tæknifyrirtækinu.
Engu að síður eru Apple bréfin enn verðmætasta hlutabréfaeign Berkshire en virði bréfanna hefur hækkað gríðarlega frá þeim tíma er Buffet byrjaði að fjárfesta í félaginu.
Hlutabréfaverð Apple hefur hækkað um 16% á árinu og sagði Buffet á fundi með fjárfestum í maímánuði að hann hefði enn mikla trú á fyrirtækinu.
Handbært fé Berkshire Hathaway heldur áfram að aukast og stóð í 325,2 milljörðum Bandaríkjadala í lok septembermánaðar. Samsvarar það um 44 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Handbært fé félagsins hefur aldrei verið meira og er þetta í fyrsta sinn sem það fer yfir 300 milljarða dali.
Samkvæmt WSJ gerir féð Buffet kleift að ráðast í stórar fjárfestingar með skömmum fyrirvara sjái hann fyrirtæki sem hann vilji bæta í eignasafn Berkshire.
Berkshire ákvað ekki að kaupa eigin hluti í fjórðungnum en það hefur ekki gerst síðan 2018.
Handbært fé félagsins hefur aldrei verið meira og er þetta í fyrsta sinn sem það fer yfir 300 milljarða dali.
Samkvæmt WSJ gerir féð Buffet kleift að ráðast í stórar fjárfestingar með skömmum fyrirvara sjái hann fyrirtæki sem hann vilji bæta í eignasafn Berkshire.
Berkshire ákvað ekki að kaupa eigin hluti í fjórðungnum en það hefur ekki gerst síðan 2018.
Berkshire losaði einnig um hlutabréf í Bank of America á fjórðungnum en þar sem hlutur félagsins í bankanum fór fyrir 10% kröfðust eftirlitsaðilar að fjárfestingafélagið myndi tilkynna öll viðskipti um leið og þau gengu í gegn en ekki ársfjórðungslega.
Samkvæmt árshlutauppgjöri er hlutur Berkshire í bankanum kominn undir 10% á ný.