Umræða um góðæri og þenslu í íslensku viðskiptalífi hefur verið hávær að undanförnu. Krónan styrkist dag frá degi, ferðaþjónustan blómstrar og nýbyggingar virðast spretta upp hvarvetna. Nú er svo farið að margir hafa jafnvel líkt ástandinu við uppgangsárin fyrir efnahagshrunið. Að sögn ýmissa forsvarsmanna íslenskra verktakafyrirtækja er umræðan þó fjarri raunveruleikanum enda nái umræddur uppgangur aðeins til fárra byggingarverktaka.
Vegna skorts á innviðaframkvæmdum og verkefnum tengdum vegagerð hefur verkefnastaðan gjarnan verið slæm og afkoma fyrirtækja neikvæð. Nokkurrar svartsýni gætir meðal framkvæmdaraðila og flestir gefa lítið fyrir yfirlýsingar stjórnmálaflokka um að fljótlega skuli ráðist í innviðauppbyggingu með tilheyrandi stórframkvæmdum.
Fáar vísbendingar um góðæri
Viðskiptablaðið valdi af handahófi sex verktakafyrirtæki sem sinna mismunandi verkefnum og skoðaði afkomutölur aftur til ársins 2012. Tölurnar eru misjafnar en sýna þó fæstar afgerandi vísbendingar um góðæristíma líkt og hjá ýmsum öðrum starfstéttum. Ársreikninga verktakafyrirtækja verður þó að skoða með þeim fyrirvara að framgangur einstakra verkefna getur haft mikil áhrif á afkomutölu hverju sinni og reksturinn því oft á köflum sveiflukenndur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir hlekknum Tölublöð.