Sýn verður með útsendingarrétt á enska boltanum eftir næsta tímabil, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins en mbl.is greindi fyrst frá.
Samkvæmt heimildum er Sýn að greiða sambærilegt verð fyrir enska boltann og Síminn greiddi árið 2021 með tilliti til verðbreytinga. Síminn greiddi rúma þrjá milljarða fyrir sýningarréttinn árin 2022 til 2025 eða um 1 til 1,1 milljarð fyrir hvert keppnistímabil.
Má því áætla að Sýn sé að greiða hátt í fjóra milljarða fyrir sýningarréttinn en markaðsvirði Sýnar í Kauphöllinni er rúmir átta milljarðar.
Enska úrvalsdeildin færðist frá Stöð 2 Sport yfir til Sjónvarps Símans árið 2019 í kjölfar útboðs um réttinn árið 2018.
Síðan var nýr samningur til þriggja tímabila gerður við Símann árið 2021.
Í seinna útboðinu árið 2021 var mikil samkeppni milli Símans, Sýnar og Viaplay og var farið í þrjár útboðsumferðir.
Núverandi útboðsferli er enn í gangi og verður tilkynnt um niðurstöðuna á næstu dögum.