Afgangur var af rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrsta sinn frá árinu 2019.
Um 196 milljóna króna afgangur var af rekstri A-hlutans samanborið við 921 milljón króna halla á sama tímabili í fyrra. Áætlun borgarinnar gerði þó ráð fyrir 1,9 milljarða króna afgangi.
Skatttekjur borgarinnar voru 72,5 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins og hækkaði staðgreiðsla útsvars um 4,9 milljarða króna milli ára. Líkt og fyrri ár var álagningarhlutfall útsvars 14,97% sem er lögbundið hámark en launahækkanir spila hér stórt hlutverk.
Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs, sem hefur með hinn almenna rekstur borgarinnar að gera, var neikvæð um 1,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Í greinargerð fagsviða má sjá að launakostnaður var 882 milljónum umfram fjárheimildir á fyrstu sex mánuðunum en til samanburðar var launakostnaður allt árið 2023 aðeins 124 milljónum króna umfram heimildir.
Verulegur halli hjá leikskólum
Frávik í launakostnaði í ár voru mest hjá skóla- og frístundasviði þar sem laun fóru meira en einum milljarði umfram fjárheimildir á sex mánuðum m.a. vegna veikinda og aukins stuðnings við móttöku hælisleitenda.
Rekstrarniðurstaða leikskóla borgarinnar sýnir hallarekstur sem nemur 15,2% að fjárhæð 1,35 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Allir leikskólar borgarinnar nema fjórir voru reknir með halla en yfir 60 leikskólar í Reykjavík eru borgarreknir.
Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar bendir á í greinargerðinni að rekstur leikskóla borgarinnar hafi verið í „verulegum halla“ frá árinu 2020.
„Ætla má að það skýrist af ýmsum samverkandi þáttum s.s. áhrifum af styttingu vinnuvikunnar, fjölgun undirbúningstíma, auknum veikindum og fækkun barna í umsjón hvers starfsmanns,“ segir í ábendingum fjármálasviðs.
Fjölgun starfsmanna og meiri útgjöld
Ef þróun skóla- og frístundasviðs er skoðuð má sjá að frá árinu 2018 hafa útgjöld til sviðsins aukist um 50% og farið úr 49,4 milljörðum í 74,2 milljarða í fyrra.
Samsvarar það um 14,5% hækkun á föstu verðlagi. Starfsmönnum hefur á sama tímabili fjölgað úr 4.375 í 4.865 sem samsvarar um rúmlega 11% fjölgun á fimm árum.
Á tímabilinu 2018 til 2023 fór nemendafjöldi í grunnskólum borgarinnar úr 15.097 í 15.654 sem samsvarar um 3,7% aukningu.
Fjöldi leikskólabarna fór úr 6.464 í 6.869 sem samsvarar um 6,27% aukningu. Annað svið borgarinnar sem rétt er að vekja athygli á er umhverfis- og skipulagssvið en þar var rekstur og umhirða borgarlandsins 834 milljónum króna yfir fjárheimildum á fyrstu sex mánuðum ársins.
Skýrist það að nær öllu leyti vegna vetrarþjónustu borgarinnar sem fór 815 milljónum króna yfir fjárheimildir sínar á sex mánaða tímabili. Ástæðan er sögð vegna „aukinnar þjónustu og ótíðar“ á þessum sex mánuðum frá janúar til júní.
Á tímabilinu 2018 til 2022 hækkuðu nettóútgjöld umhverfis og skipulagssviðs um 91% og fóru úr 6,8 milljörðum í 13 milljarða. Nettóútgjöld til reksturs og umhirðu borgarlands hækkuðu um 101% og fóru úr 4,8 milljörðum króna í 9,6 milljarða.
Á tímabilinu varð 0% breyting á flatarmáli í slætti á meðan flatarmál hreinsunar gatna og gönguleiða dróst saman um 12%. Á árinu 2023 fór rekstur og umhirða borgarlands 1,2 milljörðum umfram fjárheimildir sínar og var vetrarþjónustan þar 961 milljón króna umfram fjárheimildir.
Hreinsun borgarlandsins var 30 milljónum króna umfram fjárheimildir og grassláttur var 30 milljónum króna umfram fjárheimildir ársins.
Til að setja þessa umframkeyrslu í samhengi má benda á að borgin sótti aðeins 316 milljónir króna í skuldabréfaútboði í apríl.
Aðeins bárust tilboð fyrir 474 milljónir króna að söluvirði, sem sýnir afar lítinn áhuga fjárfesta.
Selt var fyrir 215 milljónir í RVK 53 á ávöxtunarkröfunni 3,45%, en 101 milljón í RVKN 35 á kröfunni 8,85%. Krafan á óverðtryggða bréfinu tók við sér í kringum árshlutauppgjör borgarinnar í síðustu viku og fór úr 8,60% á miðvikudaginn niður í 8,403% á mánudaginn.
Þegar krafan lækkar hækkar virði bréfanna og gæti því verið að áhugi sé að vakna að nýju á bréfunum eftir árshlutauppgjör.
Hins vegar er rétt að benda á að undir lok apríl gaf borgin út nýjan óverðtryggðan stuttan skuldabréfaflokk, RVKN 27 að nafnvirði 3 milljarðar króna, til að bregðast við fjárþörf til skemmri tíma og endurfjármagna hluta af skuldabréfaflokknum RVKN 24 1 sem var á gjalddaga í maí.
Um er að ræða vaxtagreiðslubréf með lokagjalddaga 26. apríl 2027 og tveimur vaxtagjalddögum á ári. Nafnvextir skuldabréfsins eru 9,52%.
Áskrifendur geta nálgast greiningu Viðskiptablaðisins á fjármálum sveitarfélaganna hér.