Sjóðastýring var einu sinni iðnaður þar sem stjörnusjóðstjórar gátu rukkað há gjöld fyrir að stýra eignum fjárfesta.
Með tímanum hafa vísitölusjóðir hins vegar kollvarpað þessum markaði með því að bjóða upp á ódýrari og einfaldari leiðir til að fjárfesta í helstu eignaflokkum.
Árið 2010 voru einungis 19% sjóða í Bandaríkjunum í óvirkri stýringu, en í dag eru þeir orðnir meirihluti markaðarins, samkvæmt Financial Times.
Þessi þróun hefur haft mikil áhrif á gjöld sem fjárfestar greiða.
Samkvæmt rannsókn Morningstar hefur meðalársþóknun sjóða í Bandaríkjunum lækkað úr 0,87% árið 2003 í 0,36% árið 2023. Þetta jafngildir sparnaði upp á 150 milljarða dollara á ári miðað við fyrra álag.
Sjóðastýringarfyrirtæki leita nýrra tekjuleiða
Þegar sjóðir í óvirkri stýringu tóku að ryðja sér til rúms var ljóst að sjóðastýringarfyrirtæki yrðu að bregðast við.
Eitt af því sem hefur rutt sér til rúms eru svokallaðir virkir vísitölusjóðir (e. active ETFs), sem sameina eiginleika hefðbundinna vísitölusjóða og virkra sjóða. Þeir hafa þó mun hærri gjöld – að meðaltali 0,4% á ári, sem er þrisvar til fjórum sinnum hærra en hefðbundnir vísitölusjóðir.
Önnur vinsæl nýjung eru svokallaðir „Smart beta“-sjóðir, sem velja hlutabréf byggt á ákveðnum þáttum eins og verðmæti eða skammtímasveiflum í verði.
Þó að þessar aðferðir hljómi skynsamlegar sýna rannsóknir að þær geta átt erfitt með að skila betri ávöxtun en almennur markaður til lengri tíma.
Valmöguleikunum fjölgar – en hver er ávinningurinn fyrir fjárfesta?
Auk virkra vísitölusjóða hafa svokallaðir afleiðusjóðir (e. option-based ETFs) einnig orðið vinsælir. Þeir bjóða upp á nýjar leiðir til að stýra áhættu og ávöxtun, t.d. með því að selja kaupréttarsamninga á undirliggjandi eignir eða tryggja sig gegn lækkunum með sölu á söluréttarsamningum.
Þessir sjóðir henta varfærnum fjárfestum sem vilja takmarka sveiflur í eignasafni sínu, en þeir eru oft dýrir – með ársþóknun á bilinu 0,66% til 0,82%, sem er mun meira en hefðbundnir vísitölusjóðir rukka.
ESG-sjóðir (umhverfis-, samfélags- og stjórnarháttasjóðir) hafa einnig gengið í gegnum breytingar. Þeir voru lengi vinsælir, sérstaklega í Evrópu, en áhugi á þeim hefur dvínað í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir það streymdu enn 54 milljarðar dollara inn í ESG-sjóði á síðasta ári. Þetta gefur til kynna að fjárfestar telji enn að siðferðileg fjárfesting geti skilað góðri ávöxtun til lengri tíma litið, þó að slíkar fjárfestingar kalli oft á hærri gjöld.
Annað nýtt svið sem hefur vakið athygli er svokölluð einkalánafjárfesting (e. private credit). Þetta eru lán sem ekki eru skráð á almennum skuldabréfamörkuðum, oft gefin út af sérhæfðum fjárfestingarsjóðum eða einkafjárfestingarfyrirtækjum. Þau geta boðið upp á háa ávöxtun en eru einnig áhættusöm og ill seljanleg.
Einföld leið til hækka þóknanir?
Annað nýtt svið sem hefur vakið athygli er svokölluð einkalánafjárfesting (e. private credit). Þetta eru lán sem ekki eru skráð á almennum skuldabréfamörkuðum, oft gefin út af sérhæfðum fjárfestingarsjóðum eða einkafjárfestingarfyrirtækjum. Þau geta boðið upp á háa ávöxtun en eru einnig áhættusöm og ill seljanleg.
Samkvæmt Financial Times er alveg ljóst að fjárfestar hafa nú aðgang að mun fjölbreyttari fjárfestingarkostum en áður.
Þrátt fyrir að nýir sjóðir lofi betri ávöxtun eða lægri áhættu fylgja þeim oft hærri gjöld. Gögn sýna að flestir sjóðir sem reyna að sigra markaðinn lenda undir markaðsávöxtun þegar gjöld eru tekin með í reikninginn.
FT segir mikilvægt að fjárfestar íhugi hvort þessir nýju valkostir standi undir væntingum og hvort þeir raunverulega bæti árangur umfram hefðbundna og ódýrari vísitölusjóði.
Lykilspurningin er einföld: Eru fjölbreyttari valkostir raunverulega til bóta fyrir fjárfesta – eða einfaldlega leið fyrir sjóðastýringarfyrirtæki til að hækka þóknanir sínar?