Fjár­málaþjónustu­fyrir­tækið Robin­hood mun að öllum líkindum skila árs­hagnaði í fyrsta sinn síðan félagið var skráð á markað árið 2021.

Sam­kvæmt Financial Times markar þessi áfangi tíma­mót fyrir félagið, sem náði skyndi­legri frægð á tímum jarm­bréfa­brjálæðisins árið 2021.

Sam­kvæmt væntingum greiningaraðila munu tekjur fjórða árs­fjórðungs 2024 meira en tvöfaldast miðað við fyrri árs­fjórðunga, að hluta til vegna mikilla tekna af við­skiptum með raf­myntir.

Fyrir­tækið hefur tekið stór stökk fram á við á undan­förnu ári og hefur hluta­bréfa­verð félagsins hækkað um yfir 300%, langt um­fram sam­keppnisaðila eins og Interacti­ve Brokers og Charles Schwab.

Nú er markaðsvirði Robin­hood á góðri leið með að ná 50 milljörðum Bandaríkja­dala, eða um 40 pró­sentum yfir skráningar­gengi félagsins.

Breytt stefna og vöxtur í raf­mynta­við­skiptum

Robin­hood, sem eitt sinn var ein­föld smá­for­rits­lausn sem fagnaði fyrstu við­skiptum not­enda með stjörnu­regni á skjánum, hefur um­breytt sér í fjöl­breytta fjár­málaþjónustu­lausn.

Fyrir­tækið hefur bætt við fjölda nýrra þjónusta, þar á meðal við­skipti með framtíðar­samninga, kredit­kort og aukna áherslu á tölvu­lausnir fyrir þá sem stunda reglu­leg við­skipti.

Mestan vöxt má þó rekja til við­skipta með raf­myntir, sem hafa verið sér­stak­lega áberandi undan­farið.

Greiningaraðilar spá því að tekjur Robin­hood af raf­mynta­við­skiptum muni ná 320 milljónum dala á fjórða árs­fjórðungi, saman­borið við aðeins 61 milljón á þriðja árs­fjórðungi. Vöxturinn kemur á sama tíma og vonir um jákvæðara reglu­um­hverfi fyrir raf­myntir hafa aukist í kjölfar for­seta­kosninga í Bandaríkjunum.

Í júní keypti Robin­hood raf­mynta­skipti­markaðinn Bit­stamp fyrir 200 milljónir dala, sem gæti opnað mögu­leika á nýjum þjónustum eins og að ábyrgjast greiðslur annarra (e. staking), þar sem not­endur fá þóknun fyrir að nota raf­myntir sínar í að stað­festa færslur annarra. Slíkar þjónustur gætu skapað Robin­hood veru­legar auknar tekjur til framtíðar.

Styrk­leikar og áskoranir

Í saman­burði við stærri sam­keppnisaðila er Robin­hood enn lítið fyrir­tæki. Félagið er með 195 milljarða dala í eignastýringu, en til saman­burðar heldur Interacti­ve Brokers utan um 591 milljarð dala, meðan risar á borð við Fide­lity og Charles Schwab stjórna eignum sem nema 15 og 10 þúsund milljörðum dala, hver um sig.

Stærri keppi­nautar bjóða einnig fjöl­breyttari fjár­festinga­lausnir, eins og líf­eyris- og fjár­festingar­sjóði, sem gætu orðið áskorun fyrir Robin­hood þegar við­skipta­vinir þess eldast og leita fjöl­breyttari fjár­festingar­kosta.

Rick Wur­ster, for­stjóri Charles Schwab, benti ný­lega á að þriðjungur nýrra við­skipta­vina félagsins væri undir þrítugu, og helmingur undir fer­tugu, sem sýnir að þessi aldurs­hópur gæti verið til­búinn að færa sig yfir til stærri aðila með þroskaðri lausnir.

Bíða eftir kreditkorti úr gulli

Vlad Ten­ev, stofnandi og for­stjóri Robin­hood, hefur sett fram metnaðar­full mark­mið. Á fjár­festa­degi félagsins í desember 2024 lýsti hann því yfir að mark­miðið væri að verða nú­mer eitt í við­skiptum með val­rétti fyrir árið 2027 og leiðandi á hluta­bréfa­markaði fyrir árið 2029.

Kredit­kort Robin­hood, sem til­heyrir áskriftarþjónustunni Gold, hefur einnig vakið mikla at­hygli.

Það býður 3 pró­senta endur­greiðslu á öll kaup og valdir við­skipta­vinir geta sótt um kort úr hreinu gulli.

Yfir 2 milljónir manna eru á biðlista eftir kortinu. Greiningaraðilar telja að þessi þjónusta geti dregið fleiri við­skipta­vini inn í gjald­skyldar áskriftir og stuðlað að vexti á öðrum sviðum, eins og við­skiptum með val­rétti og hluta­bréf.

Hvað tekur við?

Robin­hood hefur sýnt fram á að það getur aðlagast breyttum aðstæðum og vaxið út fyrir upp­haf­legt hlut­verk sitt sem app fyrir smásölu­við­skipti. Þrátt fyrir að sam­keppnin sé hörð, einkum frá stærri fjár­festingar­fyrir­tækjum, telja margir að breiður grunnur í raf­myntum, val­réttum og hluta­bréfum muni styrkja stöðu Robin­hood til lengri tíma.

Greiningaraðilar, eins og Barcla­ys og Bern­stein, telja að Robin­hood gæti orðið einn af stærstu aðilunum á sviði raf­myntaþjónustu og hagnaðist veru­lega af breyttu reglu­um­hverfi á því sviði. Hvort fyrir­tækið nái að festa sig í sessi sem fjöl­breytt fjár­málaþjónustu­lausn mun þó ráðast af því hvort það geti haldið áfram að þróa nýjar vörur og þjónustur sem höfða til við­skipta­vina þess.