Í fyrsta sinn frá stofnun afhenti Tesla færri bíla á milli ára en engu að síður hækkaði virði félagsins um 53% á sama tíma.
Árið hjá Tesla byrjaði á neikvæðum nótum á fimmtudaginn þegar hlutabréfaverð félagsins tók væna dýfu eftir að afhendingatölur fjórða ársfjórðungs ollu vonbrigðum meðal fjárfesta.
Rafbílaframleiðandinn afhenti 495.570 bíla á tímabilinu, sem var um 3% færri en þær 512.300 afhendingar sem greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um, samkvæmt Visible Alpha.
Heildarafhendingar Tesla af rafbílum fyrir árið 2024 enduðu í 1,79 milljónum rafbíla, sem var lækkun frá 1,81 milljón bíla sem afhentir voru árið 2023, og fyrsti árlegi samdráttur fyrirtækisins frá upphafi.
Samkvæmt The Wall Street Journal ættu sölutölurnar ekki að koma neinum á óvart þar sem niðursveifla í sölu rafbíla hófst í byrjun síðasta árs. Hins vegar er markaðsvirði Tesla um 1,2 billjónir dala (e. trillion) sem gerir markaðsvirði félagsins meira en samanlagt virði tuttugu stærstu bílaframleiðenda heims sem koma þar á eftir.
Um 80% af öllum tekjum Tesla koma af bílasölu en þrátt fyrir samdrátt hefur virði félagsins hækkað um 72% síðastliðið ár.
Samkvæmt WSJ má rekja markaðsvirðið með beinum hætti til forstjóra félagsins Elon Musk en hann hefur talað opinberlega um mikla yfirburði Tesla á sviði gervigreindar og í þróun á sjálfstýrðum búnaði fyrir ökutæki.
Musk studdi einnig Donald Trump Bandaríkjaforseta dyggilega í kosningabaráttu sinni en nær öll árshækkun á gengi Tesla má rekja til hækkunar eftir kjör Trumps í nóvember.
Þrátt fyrir gengislækkun rafbílaframleiðandans á fimmtudaginn eru hlutabréf Tesla enn að ganga á kaupum og sölum á verði sem er um 117 falt miðað við afkomuspá félagsins á næstu fjórum ársfjórðungum.
Til samanburðar eru önnur billjón dala félög eins og Nvidia með markaðsvirði sem er þrefalt hærra en afkomuspá félagsins.
Engu að síður er um helmingur greiningaraðila sem WSJ fylgist náið með sem segja að hlutabréf Tesla séu í þeim flokki sem fjárfestar eiga að halda í eða kaupa meira af.
Í greiningu UBS í nóvember sagði bankinn að Tesla væri „að mestu drifið áfram af dýrslegum anda / skriðþunga“ en varaði við því að hlutabréfin hefðu sögulega farið í „niðurlækkunarskúr“ í þeim tímabilum þegar markaðsvirði fyrirtækisins fór langt fram úr grundvallaratriðum í rekstri.”