Í fyrsta sinn frá stofnun af­henti Tesla færri bíla á milli ára en engu að síður hækkaði virði félagsins um 53% á sama tíma.

Árið hjá Tesla byrjaði á neikvæðum nótum á fimmtu­daginn þegar hluta­bréfa­verð félagsins tók væna dýfu eftir að af­hendingatölur fjórða árs­fjórðungs ollu von­brigðum meðal fjár­festa.

Raf­bíla­fram­leiðandinn af­henti 495.570 bíla á tíma­bilinu, sem var um 3% færri en þær 512.300 af­hendingar sem greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um, sam­kvæmt Visi­ble Alpha.

Heildar­af­hendingar Tesla af raf­bílum fyrir árið 2024 enduðu í 1,79 milljónum raf­bíla, sem var lækkun frá 1,81 milljón bíla sem af­hentir voru árið 2023, og fyrsti ár­legi sam­dráttur fyrir­tækisins frá upp­hafi.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal ættu sölutölurnar ekki að koma neinum á óvart þar sem niður­sveifla í sölu raf­bíla hófst í byrjun síðasta árs. Hins vegar er markaðsvirði Tesla um 1,2 billjónir dala (e. trillion) sem gerir markaðsvirði félagsins meira en saman­lagt virði tuttugu stærstu bíla­fram­leiðenda heims sem koma þar á eftir.

Um 80% af öllum tekjum Tesla koma af bílasölu en þrátt fyrir sam­drátt hefur virði félagsins hækkað um 72% síðastliðið ár.

Sam­kvæmt WSJ má rekja markaðsvirðið með beinum hætti til for­stjóra félagsins Elon Musk en hann hefur talað opin­ber­lega um mikla yfir­burði Tesla á sviði gervi­greindar og í þróun á sjálf­stýrðum búnaði fyrir ökutæki.

Musk studdi einnig Donald Trump Bandaríkja­for­seta dyggi­lega í kosninga­baráttu sinni en nær öll árs­hækkun á gengi Tesla má rekja til hækkunar eftir kjör Trumps í nóvember.

Þrátt fyrir gengislækkun raf­bíla­fram­leiðandans á fimmtu­daginn eru hluta­bréf Tesla enn að ganga á kaupum og sölum á verði sem er um 117 falt miðað við af­komu­spá félagsins á næstu fjórum árs­fjórðungum.

Til saman­burðar eru önnur billjón dala félög eins og Nvidia með markaðsvirði sem er þre­falt hærra en af­komu­spá félagsins.

Engu að síður er um helmingur greiningaraðila sem WSJ fylgist náið með sem segja að hluta­bréf Tesla séu í þeim flokki sem fjár­festar eiga að halda í eða kaupa meira af.

Í greiningu UBS í nóvember sagði bankinn að Tesla væri „að mestu drifið áfram af dýrs­legum anda / skriðþunga“ en varaði við því að hluta­bréfin hefðu sögu­lega farið í „niður­lækkunar­skúr“ í þeim tíma­bilum þegar markaðsvirði fyrir­tækisins fór langt fram úr grund­vallar­at­riðum í rekstri.”