Óvissan um framtíð NATO hefur vakið spurningar um öryggisstefnu Íslands og gildi varnarsamningsins við Bandaríkin frá 1951.

Bandaríkjaforseti hefur ítrekað gagnrýnt bandalagið, krafist aukinna framlaga frá bandamönnum og jafnvel gefið í skyn að Bandaríkin gætu dregið sig í hlé frá skuldbindingum sínum, þar á meðal frá 5. grein Norður-Atlantshafssamningsins, sem kveður á um að árás á eitt bandalagsríki sé árás á þau öll.

Þessi þróun hefur leitt til þess að evrópskir leiðtogar hafa beint sjónum sínum í auknum mæli að eigin vörnum og sjálfstæðari öryggisstefnu.

En hvaða afleiðingar gætu þessar breytingar haft fyrir Ísland, sem hefur hvorki eigin her né sjálfstæða varnargetu?Í nýrri grein fjallar Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, um möguleg áhrif þess ef Bandaríkin segðu sig úr NATO eða drægju sig til baka úr varnarsamstarfinu við Ísland.

Gæti varnarsamningurinn fallið úr gildi?

Bjarni bendir á að varnarsamningurinn frá 1951 hafi verið gerður á þeirri forsendu að bæði Ísland og Bandaríkin væru hluti af NATO. Í formála hans kemur fram að samningurinn sé svar við beiðni Norður-Atlantshafsbandalagsins um að Ísland og Bandaríkin gerðu ráðstafanir til varnar Íslandi og bandalaginu í heild. Enn fremur segir í 1. grein samningsins að Bandaríkin muni „fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins“ gera ráðstafanir til varnar Íslandi.

Ef Bandaríkin segðu sig úr NATO mætti því halda fram að grundvallarforsendur samningsins væru brostnar. Slíkt gæti falið í sér lagalega óvissu um hvort varnarsamningurinn héldi gildi sínu. Bandaríkin gætu einnig vísað í 62. grein Vínarsamningsins um milliríkjasamninga, sem heimilar samningsaðilum að segja samningum upp ef forsendur þeirra breytast með afgerandi hætti.

Gætu Bandaríkin slitið varnarsamningnum?

Í 7. grein varnarsamningsins frá 1951 kemur fram að Ísland eða Bandaríkin geti óskað eftir endurskoðun hans í samstarfi við NATO. Ef samkomulag næst ekki innan sex mánaða getur annað hvort ríkið sagt honum upp með tólf mánaða fyrirvara.

Ef Bandaríkin hefðu pólitískan vilja til að slíta varnarsamstarfinu við Ísland væri það lagalega einföld leið til að segja varnarsamningnum upp. En jafnvel án formlegrar úrsagnar úr NATO gætu Bandaríkin ákveðið að hverfa frá varnarskuldbindingum sínum gagnvart Íslandi. Þar sem samningurinn byggir á því að Bandaríkin verji Ísland fyrir hönd NATO, gæti verið pólitískur vilji til að breyta áherslum í varnarsamstarfi.

Ef slíkt gerðist myndi Ísland standa frammi fyrir þeirri spurningu hvernig það gæti tryggt varnir sínar í framtíðinni.

Hvaða valkosti hefur Ísland?

Ef varnarsamningurinn rofnar eða veikist myndi það kalla á stefnumótandi endurskoðun hjá íslenskum stjórnvöldum. Helstu valkostir Íslands væru samkvæmt Bjarna:

1. Nýr tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin

Ísland gæti reynt að ná nýjum varnarsamningi við Bandaríkin, jafnvel þó þau væru ekki lengur hluti af NATO. Bandaríkin hafa áframhaldandi hagsmuni á Norður-Atlantshafi og gætu viljað viðhalda varnarsamstarfi við Ísland utan NATO, líkt og þau gera við ríki á borð við Japan og Suður-Kóreu

2. Aukin varnarsamvinna við Evrópu

Ef Bandaríkin drægju sig í hlé gæti Ísland dýpkað varnarsamstarf sitt við Evrópu. Ísland er nú þegar hluti af NATO en gæti lagt aukna áherslu á samstarf við Joint Expeditionary Force (JEF), sem Bretland leiðir, og varnarsamstarf Norðurlanda (NORDEFCO). Bretland, Frakkland, Þýskaland og Kanada gætu einnig haft aukinn áhuga á að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.

3. Aðild að Evrópusambandinu

Einn möguleiki væri að Ísland sæktist eftir aðild að Evrópusambandinu og tæki þátt í varnarsamstarfi þess. Með aðild yrði Ísland bundið af 7. mgr. 42. gr. Lissabon-sáttmálans, sem kveður á um gagnkvæmar varnarskuldbindingar milli aðildarríkja sambandsins. Auk þess gæti Ísland tekið virkan þátt í varnarverkefnum ESB, eins og PESCO, sem miða að sameiginlegri uppbyggingu varnar- og hernaðargetu Evrópuríkja

4. Hlutleysi – raunhæfur kostur?

Að lokum veltir Bjarni upp möguleikanum á hlutleysi. Ísland gæti reynt að fylgja fordæmi Sviss eða Austurríkis, en hlutleysi krefst oft sterkrar eigin varnar. Þar sem staðsetning Íslands er hernaðarlega mikilvæg, væri óvíst hvort ríkið gæti reitt sig á hlutleysi án mikilla breytinga á varnarkerfi sínu.

Hægt er að lesa grein Bjarna hér.