The Eras Tour, tónleikaferðalag Taylor Swift, hefur slegið met yfir tekjuhæsta tónleikaferðalag sögunnar. Alls voru seldir 10 milljónir miða fyrir 2,1 milljarð dollara, eða tæplega 290 milljarða króna, á 149 tónleika. Financial Times greinir frá.
Tónleikaferðalaginu lauk með tónleikum í Vancouver í Kanada á sunnudaginn.
Ofangreind upphæð er er a.m.k. tvöfalt hærri en í tilviki nokkurs annars tónleikaferðalags í sögunni. Upphæðin inniheldur ekki miðasölu á endursölumarkaði - þar sem miðar fóru oft á tíðum nokkur þúsund dollurum yfir upphaflegt gjald - eða tekjur af söluvarningi.
Eras fór m.a. upp fyrir fimm ára kveðjutónleikaferðalag (e. farewell tour) hjá Elton John sem halaði inn 939 milljónum dollara af fleiri en 300 sýningum. Þá hefur Coldplay selt miða fyrir meira en einn milljarð dollara á 170 sýningar á Music of the Spheres tónleikaferðalaginu sem stendur enn yfir.
Þegar miðasala á Eras tónleikana hófst í nóvember 2022 var aðsóknin það mikil að vefsíða TicketMaster hrundi. Þá hafa jákvæð afleidd efnahagsleg áhrif af tónleikum Swift á nærliggjandi byggð verið lýst sem „Swiftonomics“.
Um 1,8% af allri tónlistarsölu í Bandaríkjunum í fyrra má rekja til Swift. Það samsvarar um eitt af hverjum 78 hljóðstreymum í Bandaríkjunum.