Angar hins opinbera teygja sig víðar en auk þess að á sumum mörkuðum þurfi fyrirtæki að keppa við opinber fyrirtæki á ójöfnum grunni, þá eiga einkafyrirtæki einnig í erfiðleikum með að keppa við hið opinbera um starfsfólk.

„Viðskiptaráð birti nýverið í sláandi greiningu á hversu mikinn kaupauka það felur í sér að starfa hjá hinu opinbera,“ segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, en hún er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.

Í umræddri greiningu ráðsins kemur fram að samanlagt jafngildi sérréttindi opinberra starfsmanna miðað við einkageirann um 19% kauphækkun.

„Veikindaréttur opinberra starfsmanna er mun ríkari og fjarvistir tvöfalt fleiri. Opinber starfsmaður á rétt á 95 veikindadögum á hverju ári eftir eitt ár í starfi, á meðan starfsfólk á almennum vinnumarkaði á rétt á 24 veikindadögum á ári eftir jafn langan tíma í starfi. Uppsagnarvernd opinberra starfsmanna er einnig mun ríkari en á almenna vinnumarkaðnum, auk styttri vinnuviku og lengra orlofs. Ofan á þetta allt getur hið opinbera oft á tíðum boðið fólki sambærileg eða jafnvel hærri laun en fyrirtæki á almennum vinnumarkaði. Fyrir vikið erum við og fleiri einkafyrirtæki að missa gott starfsfólk til hins opinbera. Hvernig eigum við að geta keppt við þetta?“ spyr Ásta.

Hún áréttar að hún vilji að sjálfsögðu að opinberir starfsmenn fái góð laun fyrir störf sín. Aftur á móti sé það ógn við framtíðarverðmætasköpun í samfélaginu ef hvatinn til að vinna hjá hinu opinbera sé svona miklu ríkari en að láta til sín taka í einkageiranum.

„Hver á að nenna að standa í því að stofna fyrirtæki og leggja tíma, orku og peninga í það að byggja það upp, þegar hægt er að ganga að öruggu og mjög vel launuðu starfi hjá hinu opinbera? Ef allir fara að hafa það að markmiði að vinna hjá hinu opinbera bitnar það að sjálfsögðu á verðmætasköpun í hagkerfinu, hagvöxtur verður minni, velsæld þjóðar minnkar, fjárfesting einkaaðila dregst saman og byrðar skattgreiðenda verða meiri – allir tapa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.