„Hvernig stendur á því að aðstæður eru svona krefjandi á íslenskum orkumarkaði núna? Þótt utanaðkomandi áhrif séu mikil, þá getum við fyrst og fremst kennt okkur sjálfum um." Svona hefst grein Harðar Arnarsonar, sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag undir fyrirsögninni Sjálfskaparvíti í orkumálum.

Hörður segir í greininni að grípa verði til aðgerða til að tryggja orkuöryggi heimila og almennra fyrirtækja.

„Landsvirkjun er búin að reyna að komast af stað með ný verkefni árum saman en stjórnvöld hafa ekki heimilað byggingar nýrra virkjana eftir 2020 eins og augljós þörf var á," ritar Hörður. „Við óskuðum t.d. eftir virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í júní 2021 með það að markmiði að hefja framkvæmdir 2022 og taka virkjunina í rekstur 2026. Ef það hefði gengið eftir væru horfur til næstu ára í raun ágætar. Tæpum þremur árum síðar er það enn ekki komið."

Hörður segir að til að mæta aukinni raforkuþörf stefni Landsvirkjun á fjögur virkjunarverkefni á næstu 4-5 árum; vindorkuverið Búrfellslund, vatnsaflsvirkjunina Hvammsvirkjun, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og stækkun Sigöldustöðvar, samtals 335 MW.

„Að baki þeirri öflugu uppbyggingu er að sjálfsögðu ítarlegt og yfirgripsmikið undirbúningsstarf Landsvirkjunar á liðnum árum. Fyrirtækið hefur samtals lagt meira en 30 milljarða króna í þann undirbúning og aðra 25 milljarða síðasta áratug í endurbótaverkefni sem hafa skilað betri nýtingu á þeim aflstöðvum sem fyrir eru.

Okkur er því miður ekki kunnugt um að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist auka við framboð sitt á næstu fimm árum, ef undan er skilin stækkun Svartsengisvirkjunar HS Orku um 20 MW og svo má vonandi gera ráð fyrir frekari uppbyggingu smávirkjana."

Hörður segir að stjórnvöld verð að axla ábyrgð og tryggja að leyfisveitingarferli virki betur en hingað til.

„Það verður að draga úr áhættu fyrirtækja í leyfisveitingaferli og auðvelda þannig öðrum en Landsvirkjun að taka þátt í aukinni orkuöflun. Það er væntanlega ekki tilviljun að önnur orkufyrirtæki, sem ekki hafa jafn djúpa vasa, séu ekki með neinar framkvæmdir á teikniborðinu. Það er erfitt að réttlæta að leggja í milljarða króna kostnað við 10-15 ára undirbúning virkjunar þegar það er hægt að slá virkjanakosti í nýtingarflokki út af borðinu nær alveg fram að upphafi framkvæmda."

Grein Harðar birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.