Landsmenn keyptu vörur frá erlendum netverslunum fyrir tæpa 1,93 milljarða króna í janúar síðastliðnum samkvæmt Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV). Miðað við netverslunarvísi RSV keyptu landsmenn 12,9% minna frá erlendum netverslunum en í janúar 2022.
Af framangreindum 1,93 milljörðum voru tæpar 912 milljónir vegna fataverslunar, rúmar 234 milljónir vegna verslunar með heimilisbúnað, raf- og heimilistæki og tæpar 174 milljónir vegna byggingavöruverslunar.
Mestur var samdrátturinn í flokki fataverslunar, eða um 20,3%, og 24,9% í áfengisverslun. Aukning var á milli ára í erlendri netverslun með vörur frá lyfja-, heilsu- og snyrtivöruverslunum sem nemur 18,2% og í erlendri netverslun með matvöru um 59,2%.
Til samanburðar við hina 1,93 milljarða sem landsmenn eyddu í erlendum netverslunum í janúar keyptu þeir vörur frá innlendum netverslunum fyrir 3,7 milljarða í janúar.