Það sem af er degi hefur gengi danska lyfjarisans Nova Nor­disk lækkað um 2% sem þýðir að markaðsvirði verðmætasta fyrir­tækis Evrópu hefur lækkað tölu­vert.

Hlutabréfaverð félagsins fór lægst í 540 danskar krónur um hádegisbilið á dönskum tíma sem samsvarar um 30% lækkun.

Sam­kvæmt stærsta verðbréfa­miðlara Dan­merkur, Danske Bank, eru það er­lendir fag­fjár­festar og fjár­festinga­sjóðir sem eru að selja bréfin sín í Novo Nor­disk.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í dag voru niður­stöður rannsókna á nýju þyngdar­stjórnunar­lyfi Novo Nor­disk von­brigði, en lyfið virðist ekki vera að ná sömu virkni og vonir stóðu til.

Greiningaraðilar höfðu spáð því að tekjur félagsins af nýja lyfinu yrðu um 140 milljarðar danskra króna ár­lega, eða um 2.711 milljarðar. Sú tekju­spá verður endur­skoðuð eftir niður­stöður dagsins.

„Við höfum séð það í nokkurn tíma núna að er­lendir fjár­festar hafa verið að fylgjast náið með rannsóknum á nýja lyfinu en vonir stóðu til að það myndi valda um 25% þyngdar­tapi en það mun lík­legast ná um 22%, sem er von­brigði fyrir fjár­festa,“ segir Mads H. Zink, fram­kvæmda­stjóri verðbréfa­miðlunar hjá Danske Bank, í sam­tali við Børsen.

Rannsóknarniður­stöðurnar á lyfinu sýndu um 16,1% þyngdar­tap að meðaltali en aðeins 57% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni fengu stærsta mögu­legan skammt.

Zephound-lyf sam­keppnisaðilans Eli Lily nær um 20% þyngdar­tapi.

„Í venju­legu ár­ferði myndi ég segja að þetta væru frekar ýkt viðbrögð hjá markaðinum en fjár­festar, sér­stak­lega er­lendir fag­fjár­festar, hafa verið að fylgjast náið með þessari rannsókn sem birtist í dag,“ segir Mads.

Sam­kvæmt Mads eru danskir einka­fjár­festar á kaup­hliðinni en söluþrýstingurinn að utan er að þrýsta verðinu niður.

„Við erum að sjá ein­hverja danska fag­fjár­festa á kaup­hliðinni en verðið er að lækka svo hratt vegna þess að söluþrýstingurinn er tölu­vert meiri en kaupáhuginn.“