Það sem af er degi hefur gengi danska lyfjarisans Nova Nordisk lækkað um 2% sem þýðir að markaðsvirði verðmætasta fyrirtækis Evrópu hefur lækkað töluvert.
Hlutabréfaverð félagsins fór lægst í 540 danskar krónur um hádegisbilið á dönskum tíma sem samsvarar um 30% lækkun.
Samkvæmt stærsta verðbréfamiðlara Danmerkur, Danske Bank, eru það erlendir fagfjárfestar og fjárfestingasjóðir sem eru að selja bréfin sín í Novo Nordisk.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag voru niðurstöður rannsókna á nýju þyngdarstjórnunarlyfi Novo Nordisk vonbrigði, en lyfið virðist ekki vera að ná sömu virkni og vonir stóðu til.
Greiningaraðilar höfðu spáð því að tekjur félagsins af nýja lyfinu yrðu um 140 milljarðar danskra króna árlega, eða um 2.711 milljarðar. Sú tekjuspá verður endurskoðuð eftir niðurstöður dagsins.
„Við höfum séð það í nokkurn tíma núna að erlendir fjárfestar hafa verið að fylgjast náið með rannsóknum á nýja lyfinu en vonir stóðu til að það myndi valda um 25% þyngdartapi en það mun líklegast ná um 22%, sem er vonbrigði fyrir fjárfesta,“ segir Mads H. Zink, framkvæmdastjóri verðbréfamiðlunar hjá Danske Bank, í samtali við Børsen.
Rannsóknarniðurstöðurnar á lyfinu sýndu um 16,1% þyngdartap að meðaltali en aðeins 57% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni fengu stærsta mögulegan skammt.
Zephound-lyf samkeppnisaðilans Eli Lily nær um 20% þyngdartapi.
„Í venjulegu árferði myndi ég segja að þetta væru frekar ýkt viðbrögð hjá markaðinum en fjárfestar, sérstaklega erlendir fagfjárfestar, hafa verið að fylgjast náið með þessari rannsókn sem birtist í dag,“ segir Mads.
Samkvæmt Mads eru danskir einkafjárfestar á kauphliðinni en söluþrýstingurinn að utan er að þrýsta verðinu niður.
„Við erum að sjá einhverja danska fagfjárfesta á kauphliðinni en verðið er að lækka svo hratt vegna þess að söluþrýstingurinn er töluvert meiri en kaupáhuginn.“