Gunnar Örn Erlingsson, forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Arion banka, telur að það kunni að vera áhugavert umhverfi um þessar mundir fyrir erlenda fjárfesta að kaupa skuldabréf á Íslandi.
„Í grófum dráttum er vaxtamunurinn við Bandaríkin á langa endanum, þ.e. fyrir 10 ára bréf, um 270 punktar. Það er í hærri kantinum og hefur aukist nokkuð hratt á frekar skömmum tíma,“ segir Gunnar Örn í samtali við Viðskitpablaðið.
Vaxtamunurinn á tíu ára skuldabréfum bandaríska ríkisins og íslensku RIKB 35, 38 og 42 hefur til að mynda aukist um 50 punkta á einum mánuði.
Að mati Gunnars hefur hér áhrif að erlendir aðilar losuðu eitthvað um eignir sínar í íslenskum ríkisbréfum upp á síðkastið en einnig að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur í raun ýjað að því að vextir verði varla lækkaðir mikið frekar í ár.
Við þannig skilaboð frá Seðlabankanum hafa einhverjir fjárfestar losað sig við löng ríkisskuldabréf en á sama tíma hafa vextir og um leið ávöxtunarkröfur verið að lækka erlendis.
„Þannig að þetta gæti farið að líta álitlega út fyrir erlenda aðila,” segir Gunnar Örn, en bætir þó við að raungengi krónunnar sé sterkt um þessar mundir og gengi dollarans hefur veikst töluvert gagnvart öðrum myntum að undanförnu.
Haldist vextir óbreyttir við næstu vaxtaákvarðanir segir Gunnar Örn að íslenska fjárfestingaumhverfið gæti orðið nokkuð ákjósanlegt fyrir erlenda aðila til að stunda vaxtamunaviðskipti með íslensk skuldabréf.
„Ef við sjáum ekki vaxtalækkanir á árinu, sem ég tel ágætis líkur á. Vextir haldast þá háir og löng ríkisskuldabréf bera um 7% ávöxtunarkröfu samhliða því að ávöxtunarkröfur erlendis lækki, þá má spyrja sig hvort það kunni ekki að vekja áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi,” segir Gunnar Örn.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um verðbólguvæntingar, krónuna og vaxtamunaviðskipti í Viðskiptablaði vikunnar.