Erlendir fjárfestar fengu úthlutað 30% af hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka sem boðinn var út í hlutafjárútboði í júní 2021 en úthlutunin var í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins. Af þeim 486 milljarða króna áskriftarloforðum sem bárust í útboðinu voru 20,1% frá erlendum aðilum, samkvæmt nýlegri skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.
„Stofnunin telur jafnframt rétt að úthluta hærri hlutdeild til alþjóðlegra fjárfesta, þ.e. 30,0% til 32,5%, heldur en sem samsvarar hlutfalli áskrifta þeirra, þ.e. 20,1%. Telur stofnunin slíka úthlutun samræmast markmiðum um dreifða eignaraðild, fjölbreyttara eignarhald og eflingu fjármálamarkaða,“ segir í bréfi sem Bankasýslan sendi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í kjölfar þess að áskriftartímabilinu lauk þann 15. júní 2021.
Auki áhuga alþjóðlegra fjárfesta og auðveldi frekari sölu
Bankasýslan sagðist í bréfinu telja að þátttaka virtra alþjóðlegra langtímafjárfesta stuðli að auknum áhuga þeirra sem og annarra alþjóðlegra fjárfesta á Íslandi.
„Þá er viðbúið að þátttaka alþjóðlegra fjárfesta sé til þess fallin að auka samkeppni og auðvelda frekari sölu á eignarhlutum ríkisins og gæta þannig að langtímasjónarmiðum um áhættu vegna eignarhalds,“ skrifar Bankasýslan.
Áskriftir Íslendinga mögulega undir fjárfestingargetu
Bankasýslan taldi þó að ef áhugi alþjóðlegra langtímafjárfesta yrði mikill gæti það leitt til þess að skerða þyrfti alveg áskriftir erlendra skammtímafjárfesta. Stofnunin leit svo á að sökum lítillar úthlutunar væru verulegar líkur á að þeir myndu selja fljótlega úthlutun sína „með mögulegum neikvæðum afleiðingum á eftirmarkaði“.
Bankasýslan mat það svo að áskriftarloforð erlendra langtímafjárfesta væru í fullu samræmi við bolmagn og áhuga en taldi dæmi um að áskriftir á meðal innlendra fjárfesta geta verið „mun hærri en raunveruleg fjárfestingargeta þeirra“.
Hlutur erlendra fjárfesta lækkað úr 10,5% í 7,4%
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, féllst á tillögu Bankasýslunnar og veitti stofnuninni umboð til að ljúka sölumeðferð í samræmi við hana. Erlendir fjárfestar fengu því úthlutað 10,5% af heildarhlutafé Íslandsbanka í útboðinu. Líkt og fjallað hefur verið um minnkuðu erlendir fjárfestar hlut sinn í bankanum eða seldu hann alfarið í kjölfar útboðsins og var eignarhlutur þeirra kominn niður í 7,4% í byrjun janúar 2022.
Í skýrslunni er þó tekið fram að hlutur erlendra langtímafjárfesta (e. long only investors) hafi haldist nokkuð stöðugur, eða farið úr 7,4% í 7,0%.
Sjá einnig: Hluthöfum Íslandsbanka fækkað um þriðjung
Á móti hafa íslenskir lífeyrissjóðir aukið hlut sinn í bankanum í kjölfar útboðsins og fóru með 15,3% hlut í bankanum í byrjun árs, samanborið við 9,4% eftir útboðið.
Ekki ráðlegt að hækka skerðingarviðmið
Í hlutafjárútboðinu var sett viðmið um að tryggt yrði að tilboðsgjafar í hluti undir einni milljón króna að markaðsvirði yrðu ekki fyrir skerðingu ef umframeftirspurn yrði í útboðinu. Í skýrslunni kemur fram að af þeim 24 þúsund áskriftum sem bárust voru 16.703 áskrifendur sem þurftu ekki að sæta skerðingu. Því má ætla að sjö þúsund fjárfestar hafi sætt skerðingu í útboðinu.
Fram kemur að lagt hafi verið mat á það að hækka þessa fjárhæð að einhverju leyti. Ráðgjafar Bankasýslunnar töldu það þó ekki ráðlegt „vegna þess að með því að auka hlut almennra fjárfesta í útboðinu yrði hlutur fagfjárfesta skertur enn frekar umfram það sem boðað hafði verið, nema ef útboðið yrði stækkað umfram 35% eignarhlut“.
Hækkuðu viðmiðið fyrir Capital World
Í útboðinu voru erlendu sjóðastýringarfyrirtækin Capital World og RWC Asset Management valin sem hornsteinsfjárfestar ásamt Lífeyrissjóði Verzlunarmanna (LIVE) og Gildi lífeyrissjóði. Capital World fékk úthlutað 3,85% hlut í bankanum og RWC fékk 1,54% hlut. Í skýrslunni kemur fram að Bankasýslan hafi í tilfelli Capital World óskað eftir því að víkja frá viðmiði um 3,0% hámarksúthlutun hvers tilboðsgjafa.
„Rökstuðningur fyrir þessu var sá að orðspor þessa fjárfestis og aðkoma hans myndi efla innlendan fjármálamarkað og hafa jákvæð áhrif á eftirspurn, sérstaklega annarra langtímafjárfesta, eftir hlutum í bankanum fyrir og eftir útboðið,“ segir í skýrslunni.
Capital World stækkaði hlut sinn í bankanum eftir útboðið og er í dag stærsti hluthafi Íslandsbanka, að undanskildum ríkissjóði, með 4,35% hlut.