Rúm­lega 7,7 milljarða króna velta var með hluta­bréf Marels á fjórum við­skipta­dögum frá miðviku­degi til mánu­dags eftir að John Bean Technologies birti árs­hluta­upp­gjör á þriðju­daginn í síðustu viku.

Líkt og kunnugt er hefur JBT lagt fram yfir­töku­til­boð í allt hluta­fé Marels en kaup­verðið verður greitt með 35% reiðufé og 65% hluta­bréfa í JBT.

Fast viðmiðunar­gengi á hlutum JBT í við­skiptunum er 96,25 Bandaríkja­dalir á hlut en dagsloka­gengi JBT á mánu­daginn nam 117 dölum.

Gengi bandaríska félagsins hækkaði um tæp­lega 23% frá miðviku­degi til mánu­dags eftir að félagið birti árs­hluta­upp­gjör og fór úr rúmum 95 dölum í 117 dali.

Gengi JBT hefur lækkað ör­lítið síðastliðinn sólar­hring en greint var frá því í morgun að FME hefði samþykkt beiðni JBT um fram­lengingu á gildistíma val­frjáls yfir­töku­til­boðs í Marel.

Dagsloka­gengi Marels á þriðju­daginn var 522 krónur en gengið lokaði í 580 krónum á mánu­daginn.

Er­lendir fjár­festinga­sjóðir hafa verið að kaupa bréf Ís­lendinga í Marel sem hugnast ekki að eiga hluti í sam­einaða félaginu, vegna verðbils á gengi JBT og Marels miðað við yfir­töku­til­boðið.

Sam­kvæmt sér­fræðingum á verðbréfa­mörkuðum eru sjóðirnir að skort­selja JBT en kaupa jafn mikið á móti í Marel til að festa inn hagnað út frá mis­muninum þegar til­boðið gengur í gegn.

Þá eru dæmi um það að hlut­hafar í Marel sem höfðu samþykkt til­boðið og óskað eftir að fá greitt í reiðufé, hafa verið að fara inn á fjár­festingasíður Arion banka, sem er með um­sjón með til­boðinu, og afþakka til­boðið og selja bréfin sín á markaði þar sem hægt er að fá meira fyrir bréfin miðað við gengi mánu­dagsins á markaði en í til­boðinu.

Hluthafar Marels geta valið milli þess að fá:

A. Greiddar 3,60 evrur í reiðufé.

B. Afenta 0,0265 hluti í JBT og 1,26 evrur í reiðufé.

C. Fá afenta 0,0407 hluti í JBT.

Aðeins 950 milljónir evra skiptast á milli allra þeirra hlut­hafa sem óska eftir því að fá reiðufé.

Eftir að því hefur verið skipt niður pro rata á þá hlut­hafa sem eftir því óska, verður toppað upp með hluta­bréfum í JBT.

Greitt verður fyrir hlutina í evrum og er fast skipti gengi evru og krónu 149,5 krónur. Miðað við fasta skipti­gengið fást greiddar 538 krónur á hlut í Marel. Dagsloka­gengi Marels í kaup­höllinni á mánu­daginn var 580 krónur.

Miðað við það er hægt að fá um 8% meira fyrir hlut sinn með því að selja hann á markaði.

Sé miðað við að hlut­hafi breyti evrum í krónur á núverandi gengi fá hlut­hafar sem taka blandaða til­boðinu B um 613 krónur á hlut, miðað við dagsloka­gengi JBT á meðan hlut­hafar sem taka til­boði C og fá 0,0407 hluti í JBT fá tæp­lega 654 krónur fyrir sinn hlut.

Mun því vera um 5,7% hagnaðar­auki á að taka til­boði B og um 12,7% á því að taka til­boði C. yfir­töku­til­boðið og hafa verið að kaupa bréf Ís­lendinga í Marel sem hugnast ekki að eiga hluti í sam­einaða félaginu.

Um 8 milljarða króna veltan ein og sér bendir einnig sterk­lega til þess að er­lendir aðilar séu að sópa upp bréfum í Marel.

Þessi frétt birtist í Viðskiptablaðinu og er miðað við dagslokagengi JBT, Marels og gjaldmiðla á mánudagskvöldið 28. október.