Enginn bilbugur á Trump

Donald Trump hélt áfram að fóðra fréttamiðla heimsins en fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn var ákærður í fjórgang á árinu. Réttarhöld í málunum fara fram á næsta ári en hann var ákærður í New York-ríki í mars fyrir meintar mútugreiðslur og í Flórída-ríki í júní fyrir að hafa tekið með sér leyniskjöl úr Hvíta húsinu. Í ágúst var hann síðan ákærður í bæði Washington-borg og Georgíu-ríki fyrir tilraunir til að snúa við úrslitum forsetakosninganna árið 2020. Sama mánuð gaf hann sig fram í Georgíu og fór fangamynd af honum sem eldur í sinu um netheima.

Barbenheimer slær í gegn

Ólíklegasta tvenna ársins leit dagsins ljós í júlí þegar Hollywood stórmyndirnar Barbie og Oppenheimer voru frumsýndar á sama tíma. Myndirnar áttu fátt ef eitthvað sameiginlegt – enda önnur gamanmynd um vinsæla leikfangadúkku og hin sannsöguleg dramamynd um fyrstu kjarnorkusprengju heims – en það stöðvaði ekki áhorfendur við að gera sér glaðan dag og skella sér á báðar myndir. Óhætt er að segja að fyrirbærið „Barbenheimer“ hafi tröllriðið heimsbyggðinni en samanlagt nam miðasala á myndirnar ríflega 2,4 milljörðum dala eða sem nemur 335 milljörðum íslenskra króna. Það var þó ekki allt dans á rósum í Hollywood á árinu þar sem fimm mánaða verkfall handritshöfunda og fjögurra mánaða verkfall leikara setti strik í reikninginn. Áætlað er að kostnaðurinn við verkföllin hafi numið sex milljörðum dala.

Ozempic ævintýrið heldur áfram

© epa (epa)

Ævintýrið um Novo Nordisk hélt áfram á árinu enda eru offitusjúklingar nánast óseðjandi þegar kemur að lyfinu Ozempic sem danski lyfjarisinn selur. Ekki minnkaði eftirspurnin þegar rannsóknir sýndu fram á að lyfið virkar á fleira en offitu og sykursýki. Segja má að rekstur félagsins hafi verið vonum framar. Sala lyfja var þriðjungi meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir á fyrstu níu mánuðum ársins og rekstrarhagnaður jókst um tæp 40% á tímabilinu. Velgengnin gerði það að verkum að Novo varð stærsta fyrirtæki Evrópu að markaðsvirði á árinu en gengi hlutabréfa er nú 96 dalir á hlut. Sumir sérfræðingar telja að hlutabréfaverðið gæti farið í 200 dali á næstu tíu árum. Það er ágætt dæmi um umfang og velgengni Novo að samdráttur hefði mælst í danska hagkerfinu á árinu hefði lyfjarisans ekki notið við.

Væntingarstjórnun á verðbréfamarkaði

© epa (epa)

Verðbréf gengu kaupum og sölum á árinu og hækkuðu og lækkuðu eftir atvikum. Það er svo sem ekki fréttnæmt en greina má ákveðna vendipunkta á árinu. Skarar vaxtahækkanir beggja vegna Atlantsála undanfarin misseri grófu undan markaðnum bæði með skuldabréf og hlutabréf á fyrri helming ársins. Þegar síga tók á seinni hluta ársins óx sannfæring fjárfesta fyrir því að vaxtalækkunarferlinu væri lokið og nú er svo komið að væntingar eru um vaxtalækkanir í Bandaríkjunum á næsta ári. Hagkerfið þar virðist nálgast heilbrigðan takt og verðbréfamarkaðir farnir að þróast eftir því. Aftur á móti eru skiptar skoðanir um stöðuna í Evrópu. Margir óttast að vaxtahækkanir Evrópska seðlabankans valdi sársaukafullum samdrætti á sama tíma og vinnumarkaðurinn þar er enn yfir spenntur.

Gjaldþrot Credit Suisse og bandarískra banka

© epa (epa)

Gjaldþrot Silicon Valley Bank þann 10. mars síðastliðinn var fyrsta gjaldþrot bandarísks banka í 867 daga eða síðan í október 2020. Þetta var næstlengsta tímabil sem liðið hefur milli bankaþrota í Bandaríkjunum. Metið er frá 2. febrúar 2007 en þá hafði liðið 951 dagur frá síðasta bankagjaldþroti. Það var þó töluvert frægari banki sem fór einnig í þrot á árinu en það var Credit Suisse. Þó að bankinn hafi ekki farið í gegnum formlegt gjaldþrot var hann engu að síður gjaldþrota í eiginlegri merkingu. Fall hans hefði orðið allt of afdrifaríkt fyrir alþjóðlegt fjármálakerfi. Þess vegna var þrotið leyst með yfirtöku annars svissnesks banka, UBS, upp á 3,3 milljarða evra í samstarfi með svissneskum fjármálayfirvöldum án þess að hafa hluthafa Credit Suisse með í ráðum.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.