Fjögur ár til viðbótar
Forsetakosningar fóru fram í Bandaríkjunum í nóvember þar sem Donald Trump var kosinn forseti í annað sinn í skugga málaferla fyrir dómstólum og tveggja banatilræða. Trump var síðast forseti árin 2016-2020 en laut í lægra haldi gegn Joe Biden þegar hann sóttist eftir endurkjöri.
Lengi vel var gengið út frá því að Biden myndi sækjast eftir endurkjöri en í júlí sl. ákvað hann nokkuð óvænt að stíga til hliðar og lýsa yfir stuðningi við Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, eftir að demókratar höfðu lýst yfir áhyggjum af getu Bidens til að sitja önnur fjögur ár. Hafði Trump þá þegar valið JD Vance sem sitt varaforsetaefni. Hefði Harris náð kjöri yrði hún fyrsti kvenkyns forsetinn í sögu Bandaríkjanna.
Trump tekur við embættinu í janúar 2025 og verður þar með bæði 45. og 47. forseti Bandaríkjanna. Er það í annað sinn sem Bandaríkjaforseti situr tvo kjörtímabil sem er ekki hvert á eftir öðru.
Stórsigur Verkamannaflokksins
Þótt forseta- og þingkosningar í Bandaríkjunum hafi eflaust vakið hvað mesta athygli á árinu áttu sér stað ekki síður mikilvægar kosningar í Bretlandi.
Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningum þar í landi en flokkurinn hafði ekki tryggt sér jafn stóran meirihluta á þinginu í hátt í þrjá áratugi. Fór svo að Verkamannaflokkurinn tryggði sér 412 þingsæti og bætti við sig 211 sætum frá síðustu kosningum. Íhaldsflokkurinn, sem hafði verið við stjórnvölin í 14 ár samfleytt, tapaði aftur á móti 250 sætum og endaði með 121 sæti.
Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins, tók við sem forsætisráðherra eftir kosningarnar og hefur ríkisstjórn hans boðað umfangsmiklar breytingar, m.a. í skattamálum, sem hafa vakið hörð viðbrögð meðal almennings.
Frjálshyggja í forgrunni
Hinn skrautlegi Javier Milei, sem kjörinn var forseti Argentínu undir lok árs 2023, virðist hafa staðið við stóru orðin í efnahagsmálum. Með niðurskurðarhnífinn á lofti réðst hann í róttækar aðgerðir í ríkisrekstrinum og blés lífi í argentínska efnahagskerfið, sem hafði lengi verið í vondum málum.
Ársverðbólga, sem stóð í 211% í desember 2023, hafði hjaðnað um rúm 20% í október 2024 og gerir fjárlagafrumvarp næsta árs ráð fyrir að hún verði komin niður í rúm 18% í lok þess árs. Þá verði ríkissjóður rekinn með afgangi.
Eldræða hans á Davos-ráðstefnunni í byrjun árs vakti mikla athygli en þar ítrekaði hann mikilvægi frjálshyggju á meðan heimsbyggðin væri í auknum mæli að færast í áttina að sósíalisma. Íþyngjandi regluverk og óhófleg ríkisafskipti væru til þess fallin að skerða efnahagslegt frelsi og velmegun heimsbyggðarinnar.
Hagkerfi nálgast jafnvægi
Eftir að verðbólga fór að hjaðna víðast hvar í heiminum árið 2023 tóku vextir að lækka árið 2024.
Seðlabanki Bandaríkjanna hóf vaxtalækkunarferli í september með 50 punkta lækkun en stýrivextir höfðu þá ekki verið lækkaðir í fjögur ár. Þá voru stýrivextir lækkaðir á evrusvæðinu og í Bretlandi, svo fátt eitt sé nefnt. Meira að segja Tyrkland, þar sem stýrivextir standa í 50%, sér fram á mögulegt vaxtalækkunarferli á næstunni.
Þó voru dæmi um stýrivaxtahækkanir í ár en japanski seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti í fyrsta sinn í 17 ár og lauk þar með löngu tímabili neikvæðra nafnvaxta. Á sama tíma dró úr hagvexti víða og auknar skuldir ríkja leiddu til þess að Seðlabanki Evrópu varaði undir lok árs við skuldakreppu á evrusvæðinu. Taldi bankinn að samspil lítils hagvaxtar og of hárra ríkisskulda væri á hættumörkum í 20 ríkjum á evrusvæðinu.
Gull og Bitcoin í hæstu hæðum
Aukinn kraftur færðist í hlutabréfamarkaði eftir að ríki heims náðu betri tökum á verðbólgunni. Fjárfestar horfðu sömuleiðis til fjölbreyttari eigna á árinu.
Rafmyntin Bitcoin náði hæstu hæðum á árinu og braut 100 þúsund dala múrinn í byrjun desember en myntin náði miklu flugi í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Gull hækkaði sömuleiðis í verði og náði sögulegu hámarki í lok október, þegar ein únsa af gulli kostaði tæplega 2.800 dali.
Bæði gull og Bitcoin njóta góðs af því þegar Bandaríkjadalurinn veikist en að öðru leyti er um gjörólíka gjaldmiðla að ræða. Viðskipti með gull eru algeng á flestum sviðum samfélagsins og hafa slík viðskipti átt sér stað í hundruð ára. Bitcoin leit aftur á móti fyrst dagsins ljós árið 2009 og hefur virði myntarinnar reglulega sveiflast mikið. Á árinu komu Bandaríkjamenn þó á fót kauphallarsjóðum fyrir rafmyntir, þar á meðal Bitcoin, sem jók aðgengi að myntunum verulega.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út mánudaginn 30. desember. Blaðið verður birt á vefnum fyrir áskrifendur klukkan 19.30, sunnudaginn 29. desember.