Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, hefur óskað eftir því við stjórn Ljósleiðarans að láta af störfum. Stjórn félagsins og Erling Freyr hafa gert með sér samkomulag um starfslok og mun hann láta af störfum frá og með 30. júní n.k en vera stjórn félagsins innan handar næstu mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Dagný Jóhannesdóttir sem gegnir stöðu forstöðumanns Tækniþjónustu og afhendinga hjá Ljósleiðaranum er staðgengill framkvæmdastjóra og mun taka við starfinu þar til nýr tekur til starfa. Dagný hefur starfað hjá Ljósleiðaranum frá árinu 2015 og þar áður hjá 365 miðlum.

Birna Bragadóttir, stjórnarformaður Ljósleiðarans:

„Erling Freyr hefur unnið frábært starf sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans frá því hann tók við félaginu fyrir rúmum átta árum. Árangurinn undir stjórn Erlings hefur verið eftirtektarverður og skilur hann við félagið á afskaplega góðum stað á metnaðarfullri vegferð. Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka Erling fyrir vel unnin störf og óska honum alls hins besta. Verkefni okkar nú er að finna leiðtoga til þess að halda áfram þeirri spennandi uppbyggingu sem Ljósleiðarinn vinnur að. Þangað til mun Dagný, sem er afar reyndur stjórnandi og þekkir félagið út og inn, taka við rekstri Ljósleiðarans. Staða framkvæmdastjóra verður auglýst á næstu dögum.“

Erling Freyr Guðmundsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:

„Þakklæti er mér efst í huga á þessum tímamótum en mér þykir afskaplega vænt um Ljósleiðarann sem ég hef tengst með einum eða öðrum hætti allt frá því fyrsti ljósleiðaraþráðurinn á þess vegum var lagður um aldamótin. Hjá Ljósleiðaranum starfar orkumikið og lausnarmiðað starfsfólk sem flytur fjöll og hefur gert alla daga frá því ég byrjaði skemmtilegri. Fjarskiptamarkaðurinn hefur verið að umturnast á seinustu árum og það hefur verið ótrúlegt hvað náðst hefur að leysa vel þau flóknu verkefni sem við höfum glímt við. Félagið hefur aldrei staðið sterkara og það er í góðum höndum þeirra sem að því standa. Verkefnin sem framundan eru skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag og ég óska arftaka mínum alls hins besta. Mín bíða spennandi verkefni sem að verður sagt frá síðar.“