Flugfélagið Ernir sem sinnt hefur áætlunarflugi til þriggja áfangastaða innanlands samkvæmt útboði Vegagerðarinnar hefur kært þá niðurstöðu að tilboð félagsins hafi ekki uppfyllt öll skilyrði að því er Túristi greinir frá.
Hörður Guðmundsson forstjóri Ernis segir fulla ástæðu hafa verið til kærunnar, en þar sem bæði tilboði Ernis sem og tilboði Flugfélags Austurlands hafi verið hafnað tók Vegagerðin tilboði Norlandair í allar þrjár flugleiðirnar.
Ernir hefur flogið til Gjögurs og Bíldudals á Vestfjörðum og til Hafnar í Hornafirði fyrir austan síðustu ár, en tilboð flugfélags Austurlands var nú það lægsta í allar þrjár flugleiðirnar.
Nam tilboð Flugfélags Austurlands nam 370 milljónum króna til Hafnar en 392 milljónir á Bíldudal og Gjögur. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar í flugið til Hafnar nam hálfum milljarði króna en 726 milljónum á vellina fyrri vestan.
Tilboð Ernis var hins vegar næst lægst í tilviki flugs til Hafnar, það er 531 milljónir króna, en hæst í tilviki flugsins á flugvellina tvo á Vestfjörðum, það er 797 milljónir. Tilboð Norlandair sem hreppti hnossið hljóðaði hins vegar upp á 612 milljónir á vellina tvo á suðurfjörðum vestfjarða og Ströndum, en 677 milljónir króna til Hafnar.
Hér má sjá frekari fréttir um flugfélagið Erni:
- 10. maí 2020 - Elsta flugfélag landsins aldrei greitt arð
- 9. maí 2020 - Viljum helst bjarga okkur sjálf
- 28. janúar 2019 - Reglugerðarbáknið vaxið mikið
- 26. janúar 2019 - Flaug með loðnu yfir landið
- 25. janúar 2019 - Samkeppnin þaulreynd