Hluta­bréfa­verð flug­félagsins United Air­lines hefur hækkað um 154% á einu ári, sem er meira en gengis­hækkun Tesla, Nvidia og Net­flix á sama tíma­bili.

Á sama tíma hefur Delta Air Lines hækkað um 77% á tíma­bilinu en bæði flug­félög hafa birt áætlanir fyrir árið 2025 sem gefa til kynna metaf­komu.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal sýnir sagan að flug­rekstur er einn erfiðasti geirinn til að ná varan­legum fjár­hags­legum árangri.

Frá árinu 1978, þegar ströngum reglu­gerðum um flug­markaðinn í Bandaríkjunum var aflétt, hafa gjaldþrot og sam­runar ein­kennt iðnaðinn.

Næstum öll helstu flug­félögin sem voru til á þeim tíma heyra sögunni til.

Þekktasti fjár­festir heims, War­ren Buf­fett, hefur ítrekað mælt gegn því að fjár­festa í flug­félögum og hefur hann meðal annars sagt að flug­félög séu „botn­laus pyttur“ fyrir peninga.

Buf­fet lærði þetta af eigin raun er hann fjár­festi í flug­félögum á tíunda ára­tugnum.

Flug­rekstur hefur háan fastan kostnað, er áhrifa­gjarn fyrir sveiflur í elds­neytis­verði og efna­hags­ástandi og í hörðu sam­keppnis­um­hverfi.

Hvers vegna er Delta og United að skara fram úr?

Delta og United hafa styrkt stöðu sína með því að nýta tækifærin sem sköpuðust eftir heims­far­aldurinn.

Farþegar sýna nú aukna til­hneigingu til að borga fyrir betri upp­lifun, og þessi tvö félög hafa lagt mikla vinnu í að þjóna bæði lág­gjalda- og há­gjalda­flugferðum.

United hefur til dæmis gert samning við Star­link, gervihnattafyrirtæki Elon Musk, til að bjóða nú upp á hrað­virkt og gjald­frálst Inter­net í vélum sínum á meðan Delta hefur fjár­fest í betri sætum og bættri þjónustu.

Slíkar að­gerðir hafa styrkt sam­keppnis­for­skot þessara flug­félaga og gert fyrir­tækin áhuga­verðari fyrir fjár­festa.

Þótt Delta og United virðist hafa stóraukið sam­keppnis­for­skot er alltaf var­huga­vert að fjár­festa í flug­félögunum að mati WSJ.

Sagan hefur sýnt að óvæntar sveiflur á markaðnum geta fellt sterkustu félögin, og þótt bjartsýni ráði á marköðunum í dag er nauð­syn­legt að halda ró sinni og ein­blína á langtímaárangur.