Hlutabréfaverð flugfélagsins United Airlines hefur hækkað um 154% á einu ári, sem er meira en gengishækkun Tesla, Nvidia og Netflix á sama tímabili.
Á sama tíma hefur Delta Air Lines hækkað um 77% á tímabilinu en bæði flugfélög hafa birt áætlanir fyrir árið 2025 sem gefa til kynna metafkomu.
Samkvæmt The Wall Street Journal sýnir sagan að flugrekstur er einn erfiðasti geirinn til að ná varanlegum fjárhagslegum árangri.
Frá árinu 1978, þegar ströngum reglugerðum um flugmarkaðinn í Bandaríkjunum var aflétt, hafa gjaldþrot og samrunar einkennt iðnaðinn.
Næstum öll helstu flugfélögin sem voru til á þeim tíma heyra sögunni til.
Þekktasti fjárfestir heims, Warren Buffett, hefur ítrekað mælt gegn því að fjárfesta í flugfélögum og hefur hann meðal annars sagt að flugfélög séu „botnlaus pyttur“ fyrir peninga.
Buffet lærði þetta af eigin raun er hann fjárfesti í flugfélögum á tíunda áratugnum.
Flugrekstur hefur háan fastan kostnað, er áhrifagjarn fyrir sveiflur í eldsneytisverði og efnahagsástandi og í hörðu samkeppnisumhverfi.
Hvers vegna er Delta og United að skara fram úr?
Delta og United hafa styrkt stöðu sína með því að nýta tækifærin sem sköpuðust eftir heimsfaraldurinn.
Farþegar sýna nú aukna tilhneigingu til að borga fyrir betri upplifun, og þessi tvö félög hafa lagt mikla vinnu í að þjóna bæði lággjalda- og hágjaldaflugferðum.
United hefur til dæmis gert samning við Starlink, gervihnattafyrirtæki Elon Musk, til að bjóða nú upp á hraðvirkt og gjaldfrálst Internet í vélum sínum á meðan Delta hefur fjárfest í betri sætum og bættri þjónustu.
Slíkar aðgerðir hafa styrkt samkeppnisforskot þessara flugfélaga og gert fyrirtækin áhugaverðari fyrir fjárfesta.
Þótt Delta og United virðist hafa stóraukið samkeppnisforskot er alltaf varhugavert að fjárfesta í flugfélögunum að mati WSJ.
Sagan hefur sýnt að óvæntar sveiflur á markaðnum geta fellt sterkustu félögin, og þótt bjartsýni ráði á marköðunum í dag er nauðsynlegt að halda ró sinni og einblína á langtímaárangur.