Stórauknar fjárfestingar í varnarmálum hafa þrýst gengi hlutabréfa evrópskra varnarmálafyrirtækja upp á við en þrátt fyrir mun hærra markaðsvirði telja fjárfestar að enn séu tækifæri til lengri tíma litið.
Stríðið í Úkraínu, vaxandi erjur milli Evrópulanda og Rússlands ásamt óvissu um stuðning Bandaríkjanna við evrópsk varnarmál hefur leitt til stórfelldra fjárfestinga í hervæðingu Evrópu.
Fjárveitingar að andvirði hundraða milljarða evra hafa verið tilkynntar, sem á að verja í uppbyggingu og eflingu evrópskra varnarmála.
Þessar aðgerðir hafa haft mikil áhrif á markaðinn og hefur gengi varnarmálafyrirtækja rokið upp.
Danski viðskiptamiðilinn Børsen spurði fimm fagfjárfesta og sjóðsstjóra hvort bjartsýni markaðarins væri komin fram úr raunveruleikanum eða hvort enn séu tækifæri fyrir fjárfesta.
Verðmatið alltaf of lágt
Jeppe Christiansen, forstjóri Maj Invest, telur að varnarmálafyrirtæki séu almennt of lágt verðmetin.
„Mín skoðun er sú að þessi fyrirtæki séu krónískt alltof lágt verðmetin. Þau eru verðlögð út frá skammtímaávöxtun og væntingum. Til lengri tíma litið verða þau í allt annarri og betri stöðu,“ segir Christiansen.
Maj Invest stofnaði nýverið varnarmálasjóð sem er með eignir upp á einn milljarð danskra króna en yfir 10.000 fjárfestar hafa keypt í sjóðnum.
Svipuð sjónarmið hafa komið frá öðrum sérfræðingum og fjárfestum. Þeir benda á að þrátt fyrir miklar verðhækkanir séu horfur fyrir áframhaldandi vöxt enn sterkar.
Þróunin á markaði hefur verið eftirtektarverð. Til að mynda hefur gengi þýska vopnaframleiðandans Rheinmetall hækkað um 1.100% frá upphafi stríðsins í Úkraínu árið 2022.
Gengi Leonardo á Ítalíu hefur hækkað um 73% frá ársbyrjun 2025. Hlutabréfaverð Thales í Frakklandi hefur hækkað um 72% á árinu.
Gengi Saab í Svíþjóð hefur hækkað um tæp 57% á árinu en gengi félagsins hækkaði um 15% á einum degi eftir orðaskipti Donalds Trump og Volodimír Selenskí í Hvíta húsinu í febrúarmánuði.
Hækkanirnar eru drifnar áfram af væntingum um stóraukna fjárfestingu Evrópusambandsins í varnarmálum, en ESB hefur lýst yfir áformum um að losa um allt að 800 milljarða evra í varnarmál.
Eru fjárfestar búnir að missa af lestinni?
Þrátt fyrir gífurleg orð stjórnmálamanna benda greiningar á markaðnum til þess að tekjur varnarmálafyrirtækja gætu vaxið hægar en margir fjárfestar vonast eftir.
Sumir af stærstu varnarmálaframleiðendum Evrópu gætu staðið frammi fyrir samdrætti í tekjuvexti á næstu þremur árum, og fyrir nokkur fyrirtæki er aðeins búist við eins hundraðshluta vexti.
Loredana Muharremi, hlutabréfagreiningarsérfræðingur hjá Morningstar, segir að enn sé mikil óvissa á mörkuðum.
„Við vitum ekki enn hversu stórar fjárfestingarnar verða eða hvenær þær munu raungerast. Þegar við fáum betri innsýn í það munum við ef til vill sjá frekari hækkun á gengi hlutabréfa í þessum geira.“
„Auðvitað kemur peningurinn“
Jeppe Christiansen bendir á að varnarmálafyrirtæki séu verðmetin út frá skammtímatekjum, en raunverulegi ávinningurinn muni ekki sjást fyrr en til lengri tíma litið.
„Allir bíða eftir að sjá hvort tekjur og hagnaður aukist fjórðung eftir fjórðung, og sumir telja að það gangi of hægt. En auðvitað kemur peningurinn,“ segir hann.
Jacob Hvidberg Falcencrone hjá Saxo Bank bendir á að varnarmálafyrirtæki standi frammi fyrir takmörkunum í framleiðslugetu.
„Það tekur tíma að byggja upp iðnaðinn og það gerist ekki á einu eða tveimur árum. Við munum sjá tekjur aukast á árunum 2028, 2029 og 2030,“ segir Jacob Hvidberg.
Goldman Sachs hefur sömuleiðis bent á að aukin varnarmálafjárfesting birtist oft ekki í ársreikningum fyrirtækja fyrr en einu til tveimur árum síðar.
Mikill vaxtarmöguleiki
Morten Gregersen, sjóðsstjóri hjá Formuepleje, hefur fjárfest í franska varnarmálafyrirtækinu Thales.
Hann telur að fyrirtækið muni njóta góðs af fjárveitingunum og að þær muni umbreyta tekjum þess.
„Ef varnarmálaútgjöld í ESB hækka um eitt prósent af vergri landsframleiðslu og þær fjárfestingar renna til evrópskra fyrirtækja, þá erum við að tala um yfir 100 milljarða evra í viðbótartekjur fyrir varnarmálaiðnaðinn. Þá eru þessi bréf enn of ódýr.“
Sértækar aðgerðir til að auka framleiðslu
Stóra spurningin er hvort varnarmálafyrirtæki geti mætt þessari miklu eftirspurn.
Jens Larson, meðstofnandi St. Petri Capital, sem hefur fjárfest í Saab og Leonardo, telur að framleiðslugeta fyrirtækjanna verði áskorun.
„Ef það tekur nokkur ár að afgreiða pantanir, þá er það vandamál. Það er líklegt að við sjáum stjórnvöld grípa til sértækra aðgerða til að auka framleiðslugetuna.“
Samkvæmt greiningu Børsen á svörum viðmælenda má segja að flestir telji að langtímahorfur séu enn góðar þrátt fyrir miklar gengishækkanir síðustu vikur.
Evrópa virðist staðráðin í að auka fjárfestingar í varnarmálum, sem gæti skapað sterka eftirspurn í mörg ár. Hins vegar eru ýmsar áskoranir, þar á meðal óvissa um fjármögnun, afhendingu pantana og framleiðslugetu fyrirtækjanna.
Fjárfestar sem horfa til langs tíma gætu enn séð mikil tækifæri, en þeir þurfa að vera þolinmóðir og tilbúnir að bíða eftir að tekjuaukning varnarmálafyrirtækjanna komi fram í rekstrarniðurstöðum þeirra.