Að undanförnu hefur dregið úr vægi fastra opnunartíma kauphalla. Robinhood, sem heldur úti samnefndu smáforriti fyrir verðbréfaviðskipti, greindi nýverið frá næststærsta viðskiptakvöldi sínu frá upphafi en aðeins velta um kosninganóttina í kringum forsetakosningarnar 2020 var meiri.
Samkvæmt Financial Times bendir þróun á mörkuðum til aukinnar eftirspurnar eftir sólarhringsviðskiptum en eftirspurnin er knúin áfram bæði af einstaklingsfjárfestum og stærri markaðsaðilum sem nýta sér háþróuð stafræn viðskiptakerfi.
Eftirspurn almennra fjárfesta eftir sólarhringsviðskiptum varð áberandi í heimsfaraldrinum er áhugi á fjárfestingum jókst samhliða breyttum starfsvenjum.
Á sama tíma hafa alþjóðlegir fjárfestar, einkum frá Asíu, aukið viðveru sína á bandarískum mörkuðum á sínum eigin dagtíma, sem dregur úr landfræðilegum tímamun í fjárfestingarvenjum.
Stofnanir og fagfjárfestar hafa þurft að laga rekstur sinn að þessari þróun. Kauphallir á borð við New York Stock Exchange (NYSE) hafa lagt fram tillögur um lengri formlega viðskiptatíma til að mæta breyttum aðstæðum, sem dregur úr muninum á dags- og næturviðskiptum.
Kerfislegar áskoranir
Útvíkkun viðskiptatíma skapar þó nýjar flækjur fyrir markaðsaðila. Sérstaklega vakna spurningar um „lokaverð“ hlutabréfa, sem oft er viðmið í vísitölufjárfestingum og sjóðastýringu.
Til dæmis: Hvenær hefst og lýkur viðskiptadagur ef viðskipti eru í gangi allan sólarhringinn? Hvernig á að skilgreina lokaverð hlutabréfs, sem er mikilvægt viðmið fyrir fjárfestingar upp á trilljónir dollara, ef viðskiptin eru samfelld?
Ef viðskipti verða nánast samfelld þarf að endurskilgreina hvernig slíkt verð er ákvarðað og hvaða áhrif það hefur á markaðinn.
Þessar spurningar eru aðeins hluti af þeim áskorunum sem fylgja viðskiptum á nóttunni.
Annar vandi felst í því hvernig sjóðsstjórar geta brugðist við stórum verðbreytingum á meðan þeir sofa og þeim kostnaði og tæknilegum erfiðleikum sem fylgja því að reka kerfi með litlum eða engum hvíldartíma.
„Þegar talað er um sólarhringsviðskipti er brandarinn sá að enginn veit hvenær sjóðstjórinn á að sofa,“ segir Tyler Gellasch, framkvæmdastjóri Healthy Markets Association í samtali við FT. „En stærra vandamálið verður þegar þú vaknar við veðkall á stórri stöðu.“
Reyndar hafa hlutabréf verið sein til að taka þátt í þessari sólarhringsbyltingu samanborið við aðra fjármálagerninga.
Gjaldeyrismarkaðurinn er opinn allan sólarhringinn á ýmsum vettvöngum um heim allan, og viðskipti með framtíðarsamninga á S&P 500-vísitölunni, sem gefa vísbendingar um þróun markaða í New York, eru virk frá morgni í Tókýó. Fjárfestar í rafmyntum hafa aldrei þekkt annað en viðskipti allan sólarhringinn.
Vaxandi áhugi fjárfesta á vesturströnd Bandaríkjanna gæti einnig haft áhrif lengri opnunartíma en Kauphöllin í New York lokar en 16:00 á staðartíma.
Síðustu stóru breytingarnar áttu sér stað fyrir um tveimur áratugum, þegar kauphallir hófu viðskipti utan opnunartíma: frá klukkan 04:00 að morgni til opnunar og frá lokun til klukkan 20:00. Fjárfestar í Los Angeles og San Francisco, sem eru þremur tímum á eftir New York, byrja viðskiptadaginn sinn oft klukkan 05:00 til að geta farið heim snemma, samkvæmt FT.
Engu að síður vakna einnig álitamál um gagnsæi og eftirlit.
Í Bandaríkjunum er markaðseftirlit strangt í skipulögðum kauphöllum, en vaxandi vægi svokallaðra „dark pools“ – óformlegra viðskiptakerfa þar sem verðtilboð eru ekki birt opinberlega – hefur skapað áskoranir í næturviðskiptum. Samkvæmt FT kallar þetta á nýjar reglur til að tryggja jafnræði fjárfesta og réttar upplýsingar á markaði.
Þó að íslenskir fjárfestar taki ekki eins virkan þátt í þessari þróun gæti breytingin vestanhafs haft áhrif hér heima.
Sérstaklega gæti þetta haft áhrif á íslenska sjóði sem eiga eignir í bandarískum hlutabréfum, þar sem sólarhringsviðskipti gætu breytt áhættustýringu og viðbragðstíma gagnvart miklum sveiflum á markaði.
Einnig má spyrja hvort íslenskir markaðsaðilar muni í framtíðinni þrýsta á um lengri viðskiptatíma á innlendum mörkuðum, í takt við alþjóðlega þróun.
Kauphöll Íslands starfar enn eftir hefðbundnum dagviðskiptum, en ef stórir erlendir aðilar aðlaga sig að sólarhringsviðskiptum gæti það haft afleidd áhrif á íslenskan markað.
Regluverkið hér á landi gæti þurft að laga sig að breyttri viðskiptahegðun erlendis, sérstaklega ef íslenskir lífeyrissjóðir og stærri fjárfestar fara að taka virkari þátt í næturviðskiptum alþjóðlegra hlutabréfa.
Tvö félög ryðja brautina
Viðskipti vestanhafs eru þó stunduð allan sólarhringinn með ýmsum hætti en fyrirtækin Blue Ocean og 24 Exchange ruddu brautina.
Blue Ocean, svokallað „alternative trading system“, hóf starfsemi árið 2021 til að veita fjárfestum aðgang að viðskiptum á nóttunni.
Blue Ocean tengir bandaríska næturfjárfesta við asískan markað, en veltan er ekki nema um 40 milljónir hluta að nafnvirði á hverri nóttu. Þetta er aðeins brot af daglegri veltu NYSE, en fyrirtækið hefur þó byggt upp stöðugan markað.
Nýlega veitti bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) fyrirtækinu 24 Exchange, sem skráð er á Bermúdaeyjar, en sérhæfir sig í gjaldeyrisviðskiptum, leyfi til að bjóða viðskipti næstum allan sólarhringinn — 23 klukkustundir á dag, með aðeins klukkutíma hlé fyrir tæknilega uppfærslu.
Þetta gerir 24 Exchange að fyrstu bandarísku kauphöllinni með yfirlýst markmið um næturviðskipti, þó að áætlanir þeirra um helgarviðskipti hafi verið skornar niður eftir gagnrýni frá markaðinum.