Að undan­förnu hefur dregið úr vægi fastra opnunar­tíma kaup­halla. Robin­hood, sem heldur úti sam­nefndu smá­for­riti fyrir verðbréfa­við­skipti, greindi nýverið frá næst­stærsta við­skipta­kvöldi sínu frá upp­hafi en aðeins velta um kosninganóttina í kringum for­seta­kosningarnar 2020 var meiri.

Sam­kvæmt Financial Times bendir þróun á mörkuðum til aukinnar eftir­spurnar eftir sólar­hrings­við­skiptum en eftir­spurnin er knúin áfram bæði af ein­stak­lings­fjár­festum og stærri markaðsaðilum sem nýta sér háþróuð stafræn við­skipta­kerfi.

Eftir­spurn almennra fjárfesta eftir sólar­hrings­við­skiptum varð áberandi í heims­far­aldrinum er áhugi á fjár­festingum jókst sam­hliða breyttum starfsvenjum.

Á sama tíma hafa alþjóð­legir fjár­festar, einkum frá Asíu, aukið viðveru sína á bandarískum mörkuðum á sínum eigin dagtíma, sem dregur úr land­fræði­legum tíma­mun í fjár­festingar­venjum.

Stofnanir og fag­fjár­festar hafa þurft að laga rekstur sinn að þessari þróun. Kaup­hallir á borð við New York Stock Exchange (NYSE) hafa lagt fram til­lögur um lengri form­lega við­skiptatíma til að mæta breyttum aðstæðum, sem dregur úr muninum á dags- og nætur­við­skiptum.

Kerfis­legar áskoranir

Út­víkkun við­skiptatíma skapar þó nýjar flækjur fyrir markaðsaðila. Sér­stak­lega vakna spurningar um „loka­verð“ hluta­bréfa, sem oft er viðmið í vísitölu­fjár­festingum og sjóðastýringu.

Til dæmis: Hvenær hefst og lýkur við­skipta­dagur ef við­skipti eru í gangi allan sólar­hringinn? Hvernig á að skil­greina loka­verð hluta­bréfs, sem er mikilvægt viðmið fyrir fjár­festingar upp á trilljónir dollara, ef við­skiptin eru sam­felld?

Ef við­skipti verða nánast sam­felld þarf að endur­skil­greina hvernig slíkt verð er ákvarðað og hvaða áhrif það hefur á markaðinn.

Þessar spurningar eru aðeins hluti af þeim áskorunum sem fylgja við­skiptum á nóttunni.

Annar vandi felst í því hvernig sjóðs­stjórar geta brugðist við stórum verðbreytingum á meðan þeir sofa og þeim kostnaði og tækni­legum erfið­leikum sem fylgja því að reka kerfi með litlum eða engum hvíldar­tíma.

„Þegar talað er um sólar­hrings­við­skipti er brandarinn sá að enginn veit hvenær sjóð­stjórinn á að sofa,“ segir Tyler Gellasch, fram­kvæmda­stjóri Healt­hy Markets Association í sam­tali við FT. „En stærra vanda­málið verður þegar þú vaknar við veðkall á stórri stöðu.“

Reyndar hafa hluta­bréf verið sein til að taka þátt í þessari sólar­hrings­byltingu saman­borið við aðra fjár­mála­gerninga.

Gjald­eyris­markaðurinn er opinn allan sólar­hringinn á ýmsum vett­vöngum um heim allan, og við­skipti með framtíðar­samninga á S&P 500-vísitölunni, sem gefa vís­bendingar um þróun markaða í New York, eru virk frá morgni í Tókýó. Fjár­festar í raf­myntum hafa aldrei þekkt annað en við­skipti allan sólar­hringinn.

Vaxandi áhugi fjár­festa á vestur­strönd Bandaríkjanna gæti einnig haft áhrif lengri opnunar­tíma en Kaup­höllin í New York lokar en 16:00 á staðartíma.

Síðustu stóru breytingarnar áttu sér stað fyrir um tveimur ára­tugum, þegar kaup­hallir hófu við­skipti utan opnunar­tíma: frá klukkan 04:00 að morgni til opnunar og frá lokun til klukkan 20:00. Fjár­festar í Los Angeles og San Francisco, sem eru þremur tímum á eftir New York, byrja við­skipta­daginn sinn oft klukkan 05:00 til að geta farið heim snemma, sam­kvæmt FT.

Engu að síður vakna einnig álita­mál um gagnsæi og eftir­lit.

Í Bandaríkjunum er markaðs­eftir­lit strangt í skipulögðum kaup­höllum, en vaxandi vægi svo­kallaðra „dark pools“ – óform­legra við­skipta­kerfa þar sem verðtil­boð eru ekki birt opin­ber­lega – hefur skapað áskoranir í nætur­við­skiptum. Sam­kvæmt FT kallar þetta á nýjar reglur til að tryggja jafn­ræði fjár­festa og réttar upp­lýsingar á markaði.

Þó að ís­lenskir fjár­festar taki ekki eins virkan þátt í þessari þróun gæti breytingin vestan­hafs haft áhrif hér heima.

Sér­stak­lega gæti þetta haft áhrif á ís­lenska sjóði sem eiga eignir í bandarískum hluta­bréfum, þar sem sólar­hrings­við­skipti gætu breytt áhættustýringu og viðbragðstíma gagn­vart miklum sveiflum á markaði.

Einnig má spyrja hvort ís­lenskir markaðsaðilar muni í framtíðinni þrýsta á um lengri við­skiptatíma á inn­lendum mörkuðum, í takt við alþjóð­lega þróun.

Kaup­höll Ís­lands starfar enn eftir hefðbundnum dag­við­skiptum, en ef stórir er­lendir aðilar aðlaga sig að sólar­hrings­við­skiptum gæti það haft af­leidd áhrif á ís­lenskan markað.

Reglu­verkið hér á landi gæti þurft að laga sig að breyttri við­skipta­hegðun er­lendis, sér­stak­lega ef ís­lenskir líf­eyris­sjóðir og stærri fjár­festar fara að taka virkari þátt í nætur­við­skiptum alþjóð­legra hluta­bréfa.

Tvö félög ryðja brautina

Við­skipti vestan­hafs eru þó stunduð allan sólar­hringinn með ýmsum hætti en fyrir­tækin Blue Ocean og 24 Exchange ruddu brautina.

Blue Ocean, svo­kallað „alternati­ve tra­ding sy­stem“, hóf starf­semi árið 2021 til að veita fjár­festum að­gang að við­skiptum á nóttunni.

Blue Ocean tengir bandaríska nætur­fjár­festa við asískan markað, en veltan er ekki nema um 40 milljónir hluta að nafn­virði á hverri nóttu. Þetta er aðeins brot af dag­legri veltu NYSE, en fyrir­tækið hefur þó byggt upp stöðugan markað.

Ný­lega veitti bandaríska verðbréfa­eftir­litið (SEC) fyrir­tækinu 24 Exchange, sem skráð er á Ber­múda­eyjar, en sér­hæfir sig í gjald­eyris­við­skiptum, leyfi til að bjóða við­skipti næstum allan sólar­hringinn — 23 klukku­stundir á dag, með aðeins klukkutíma hlé fyrir tækni­lega upp­færslu.

Þetta gerir 24 Exchange að fyrstu bandarísku kaup­höllinni með yfir­lýst mark­mið um nætur­við­skipti, þó að áætlanir þeirra um helgar­við­skipti hafi verið skornar niður eftir gagn­rýni frá markaðinum.