Nýsköpunar- og tæknifyrirtækið Alor ehf. gerði nýlega samning við danska fyrirtækið Solar A/S um samstarf á sviði sjálfbærra orkulausna. Samningurinn veitir Alor einkarétt á sölu sólarsella og rafhlaðna sem fyrirtækið selur auk tiltekinnar gerðar af varmadælum.

Solar er 106 ára gamalt fyrirtæki með 3.000 starfsmenn. Höfuðstöðvar þess eru í Danmörku en félagið sérhæfir sig í grænum orkulausnum.

Samstarfið felur einnig í sér tæknilegan stuðning og þjálfun starfsfólks Alor og fulltrúa samstarfsaðila félagsins í gegnum hið svokallaða Solar School. Síðasta sumar setti Alor til að mynda upp sólarorkukerfi frá Solar í tilraunaskyni á Seltjarnarnesi.

„Við völdum að vinna með Solar þar sem þau bjóða upp á vandaðan og öflugan tækjabúnað á góðu verði. Þau leggja mikla áherslu á sjálfbærni og gera ríkar kröfur til sinna birgja í þeim efnum. Auk Solar höfum við tryggt okkur samstarf við öfluga aðila hér á landi og erum full eftirvæntingar að leiða sólarorkuvæðingu Íslands,“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor.

Danir eru á meðal fremstu Norðurlandaþjóða þegar kemur að framleiðslu sólarorku en uppsett afl sólarorku í Danmörku er um fimm sinnum meira en Kárahnjúkavirkjunar.

„Hækkanir á rafmagnsverði, skortur á rafmagni og vaxandi orkuóöryggi hér á landi hefur leitt til þess að áhugi á sólarorku hefur aukist mikið. Alor einbeitir sér að uppsetningum fyrir fyrirtæki, stofnanir og bændur en mikil tækifæri liggja í nýtingu sólarorku á svokölluðum köldum svæðum hér á landi þar sem hús eru hituð með rafmagni,“ segir í tilkynningu frá Alor.

Samkvæmt rauntölum Alor frá sólarorkukerfi, sem var sett upp í tilraunaskyni, framleiðir kerfið rafmagn langt fram á kvöld yfir björtustu mánuðina. Framleiðslan er þó takmörkuð á dimmustu mánuðum en tölurnar gefa tilefni til bjartsýni fyrir stærri uppsetningar á næstu mánuðum. Alor mun meðal annars setja upp sólarorkukerfi á þaki Borgartúns 26 á næstu mánuðum og á nokkrum bújörðum víðs vegar um lndið.

„Okkur er sannur heiður að hefja samstarf við Alor og stuðla að aukinni nýtingu sólarorku á Íslandi sem hagkvæman orkukost. Tæknin hefur aldrei verið þróaðri og nú er mögulegt að framleiða sólarorku við lægri birtuskilyrði en áður, sem hentar vel fyrir norðlæg svæði eins og Ísland. Þá hefur kostnaður sólarsella og rafhlaðna lækkað mikið á undanförnum árum. Við erum viss um að sólarorka verði mikilvæg viðbót við orkupússl Íslands”, segir Mick Clausen, sölustjóri fyrirtækjaviðskipta hjá Solar A/S.