Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur í dag sent Íslandi formlegt áminningarbréf þar sem farið er fram á að stjórnvöld leiðrétti ranga tollflokkun á osti með viðbættri jurtaolíu, þar sem hún hamlar frjálsu flæði vara. Þetta segir í tilkynningu eftirlitsstofnunarinnar.

Í formlegu áminningarbréfi ESA kemur fram að ostur með viðbættri jurtaolíu falli undir gildissvið EES-samningsins þegar mjólkurfituinnihald er allt að 15%.

Þar með, ef ostur með viðbættri jurtaolíu hefði verið rétt flokkaður í samræmi við tollflokkun alþjóðatollastofnunarinnar og EES-samninginn, bæri ekki að leggja tolla á vörurnar.

„ESA hefur því komist að þeirri niðurstöðu að með því að flokka ost með viðbættri jurtaolíu – sem fellur undir gildissvið EES-samningsins – í rangan tollflokk og leggja tolla á vöruna, hafi Ísland brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum,“ segir í tilkynningu ESA.

Árið 2020 ákváðu íslensk tollyfirvöld að endurskoða tollflokkun á vörum sem innihéldu svokallaðar pítsaostblöndur. Niðurstaðan varð sú að slíkar vörur féllu undir 4. kaflatollskrárinnar sem endurspeglar sama kafla í tollskrá alþjóðatollastofnunarinnar (Harmonised System), sem er alþjóðlegt kerfi sem notað er til að flokka viðskiptaafurðir. Sá kafli nær yfir mjólkurvörur og fellur utan gildissviðs EES-samningsins og ber þar með tolla. Þessi flokkun hefur síðan verið staðfest af íslenskum dómstólum.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra birti í samráðsgátt í byrjun febrúar áform um lagasetningu sem breytir tollflokkuninni aftur til fyrra horfs, þannig innflutningur ostsins verði tollfrjáls í stað þess að bera þrjátíu prósenta toll.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra greindi skömmu síðar frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við áform fjármálaráðherra eftir samtal við hagsmunasamtök bænda. Hún sagðist hafa átt samtal við Daða Má og í kjölfarið hafi hann ákveðið að afturkalla áform sín.

Í fyrra tilkynnti ESA íslenskum stjórnvöldum að kvörtun hefði borist vegna tollflokkunar á osti með viðbættum jurtaolíum, þar með talið vöru sem þekkt er undir heitinu „pizza mix“.

Kvartandinn, Félag atvinnurekenda, hélt því fram að Ísland hefði flokkað slíkan ost í rangan tollflokk. Afleiðingin væri sú að lagður væri 30% tollur auk 795 kr. á hvert kg við innflutning til Íslands. Ef varan væri hins vegar rétt flokkuð, félli hún undir bókun 3 við EES-samninginn og bæri þar af leiðandi engan toll.

FA: Stjórnvöld eigi ekki aðra kosti en að fara að tilmælum ESA

Félag atvinnurekenda (FA) hefur birt tilkynningu um málið og segir niðurstöðu ESA ekki koma á óvart. Raunar segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, að niðurstaðan hafi verið fullkomlega fyrirsjáanleg.

„Vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum í landbúnaði frestaði fjármálaráðherra því fyrr í vetur að leggja fram frumvarp um að breyta tollflokkuninni til fyrra horfs. Nú eiga stjórnvöld ekki aðra kosti en að fara að tilmælum ESA, eða hætta á að fá á sig enn einn dóm EFTA-dómstólsins vegna brota á EES-samningnum.

Fyrir dyrum stendur það verkefni að lágmarka kostnað íslensku þjóðarinnar af mögulegu alþjóðlegu tollastríði. Þá er ekki gott veganesti að verða uppvís að því á alþjóðavettvangi að svindla vísvitandi á alþjóðlegum fríverslunarsamningum. Ísland á að vera ábyrgt ríki, sem hlítir reglum um alþjóðlega fríverslun og er til fyrirmyndar,“ segir Ólafur.