Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gerði í dag fyrirvaralausa athugun hjá Skel fjárfestingafélagi á grundvelli ákvörðunar ESA um athugun á starfsemi Lyfjavals, dótturfélags Heimkaupa sem er í 81% eigu Skeljar.
Með aðgerðunum í dag er ESA í fyrsta sinn að framkvæma fyrirvaralausa athugun á fyrirtæki hér á landi, að því er segir í tilkynningu á vef Samkeppniseftirlitsins (SKE).
Hafa grunsemdir um brot
„ESA hefur grunsemdir um að brotið kunni að hafa verið gegn samkeppnisreglum EES samningsins,“ segir í tilkynningu frá ESA. Fram kemur að starfsfólk ESA njóti aðstoðar starfsfólks Samkeppniseftirlitsins við athugunina.
ESA bendir á að fyrirvaralaus athugun sé einungis skref í rannsókn og málsmeðferð vegna gruns um samkeppnishamlandi háttsemi fyrirtækja. Þótt ESA geri slíka athugun liggi ekki fyrir að fyrirtæki hafi gerst sekt um samkeppnishamlandi háttsemi, né hver niðurstaða rannsóknar verður.
„Enginn ákveðinn tímarammi er til að ljúka rannsóknum á samkeppnishamlandi háttsemi. Tímalengd rannsóknar ræðst af mörgum þáttum, þ.á m. hve flókið hvert mál er, að hve miklu leyti viðkomandi fyrirtæki eru samstarfsfús við rannsóknina og af beitingu fyrirtækja á rétti sínum til að taka til varna,“ segir í tilkynningu ESA.
Samkeppniseftirlitið segist ekki ætla að veita frekari upplýsingar á þessu stigi málsins og vísar öllum fyrirspurnum vísað til ESA.
Í tilkynningu SKE segir að ESA hafi sjálfstæða heimild til að framfylgja samkeppnisreglum EES-samningsins hér á landi. Samkvæmt 22. gr. samkeppnislaga sé ESA m.a. heimilt að framkvæma fyrirvaralausar athuganir hér á landi í samræmi við nánari reglur sem um það gilda. Íslenskum stjórnvöldum beri að veita ESA aðstoð við slíkar rannsóknir.
Bent er á að ESA hafi beitt þessari heimild í málum er varða háttsemi norskra fyrirtækja, samanber t.d. dóm EFTA-dómstólsins í máli Telenor ASA og Telenor Norge AS gegn Eftirlitsstofnun EFTA.
Segja enga ástæðu ástæðu til að ætla að samkeppnislög hafi verið brotin
Skel segir í tilkynningu til Kauphallarinnar að athugun ESA snúi m.a. að viðskiptum þegar Lyfjaval seldi verslunarhúsnæði í Mjódd í eigu félagsins til Lyf og heilsu með samningi 26. apríl 2022. Áréttað er að Samkeppniseftirlitinu var sérstaklega tilkynnt um þau viðskipti.
Þá hafi Samkeppniseftirlitið lokið málinu með ákvörðun nr. 1/2023 þann 2. mars 2023. Málið var kært til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála sem úrskurðaði í málinu þann 9. ágúst 2023.
Skel eignaðist Lyfjaval að hluta þann 25. júní 2021 og eignaðist félagið að fullu þann 29. mars 2023. Félög tengd Skel eiga og reka 7 apótek, þar af 5 bílalúguapótek. Frá árinu 2022 hafa þrjú ný apótek verið opnuð.
„Samkvæmt ákvörðun ESA er athugunin hluti af athugun á mögulegri markaðsskiptingu á smásölumarkaði með lyf. Nánar tiltekið í hefðbundin apótek og bílalúguapótek,“ segir í tilkynningu Skeljar.
„Meint markaðsskipting á að hafa falist í því að Lyfjaval lokaði hefðbundnu apóteki í Mjódd og einbeitt sér að því að starfsrækja bílalúguapótek. Skel hefur áætlað markaðshlutdeild Lyfjavals í kringum 10%.“
Skel og Lyfjaval segja að þau muni aðstoða við athugun málsins og hafi veitt ESA aðgang að umbeðnum upplýsingu.
„Skel hefur enga ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum í starfsemi Lyfjavals.“
Í tilkynningunni er bent á að fyrirtækjum sé lagalega skylt að gangast við athugun sem framkvæmd er á grundvelli ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA („ESA“) í samræmi við 4. mgr. 20. gr. II. kafla bókunar 4 við samning EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
Uppfært 16:38: Fréttin var uppfærð eftir ESA og Samkeppniseftirlitið sendu frá sér tilkynningar.