Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur ákveðið að hefja formlega rannsókn á því hvort Landsvirkjun hafi brotið samkeppnisreglur EES. Rannsóknin mun snúa að því hvort markaðshegðun Landsvirkjunar í samningum og viðræðum um hugsanlega langtíma orkukaupasamninga og viðmið Landsvirkjunar við val á mögulegum viðskiptavinum feli í sér brot á samkeppni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni en þar segir að ákvörðunin um að hefja rannsókn hafi verið tekin í kjölfar kvörtunar frá markaðsaðilum. Meint brot Landsvirkjunar snúa að því að fyrirtækið hafi neitað að afhenda raforku til fyrirtækja sem leitast eftir því að framleiða vetni og/eða rafeldsneyti á Íslandi en slík háttsemi gæti talist samkeppnishamlandi.

Athugun ESA er ekki bundin lögbundnum tímafrestum en tímalengd rannsóknarinnar velti á ýmsum þáttum, þar á meðal flækjustigi máls og samvinnu fyrirtækja sem sæta rannsókn. Þá feli ákvörðunin um að hefja málsmeðferð ekki í sér að stofnunin hafi komist að niðurstöðu um brot né vísbendingu um endanlega niðurstöðu rannsóknarinnar.

Ekki er greint nánar frá mögulegum brotum Landsvirkjunar en í tilkynningu sem Landsvirkjun sendi frá sér fyrr í mánuðinum er greint frá því að fyrirtækið hafi sett sér nýja stefnu um rafeldsneyti og loftslagstengda viðskiptaþróun, sem setji ramma um þróun slíkrar starfsemi og orkusölu til hennar.

Kemur þar fram að Landsvirkjun leitist við að selja orku til verkefna sem hámarka verðmætasköpun fyrir fyrirtækið og Ísland auk þess sem það skipti máli að verkefnin stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

„Við reiknum ekki með að vetni og rafeldsneyti leiki stórt hlutverk í innlendum orkuskiptum á næstu árum þó horfur geti breyst yfir næsta áratug eða til lengri tíma litið. Kostnaður græns vetnis og rafeldsneytis er, enn sem komið er, hár samanborið við jarðefnaeldsneyti eða aðra kosti til orkuskipta, svo sem beina rafvæðingu eða líforku, og viðskiptaumhverfi sem gæti jafnað þennan mun er enn háð töluverðri óvissu. Eftirspurn helst takmörkuð við slíkar aðstæður. Við sjáum hins vegar möguleg tækifæri á þessu sviði þegar til lengri tíma er litið. Við fylgjumst því grannt með framvindu og þróun kostnaðar, viðskiptaumhverfis og eftirspurnar eftir grænu vetni og rafeldsneyti,“ segir í tilkynningunni.