Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag formlegt áminningarbréf til Íslands þar sem kallað er eftir réttri innleiðingu á EES-reglum um lágmarkshvíldartíma og hámarksvinnutíma sem varða skyldu til að skrá vinnutíma.
„Núgildandi löggjöf á Íslandi felur ekki í sér skyldu vinnuveitenda til að setja upp kerfi til að skrá vinnutíma. Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir árið 2020 að hún hygðist samþykkja nýtt lagaákvæði sem kvæði á um slíka skyldu en slíkt ákvæði hefur enn ekki verið lögfest,“ segir í tilkynningu ESA.
ESA hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt evrópsku vinnutímatilskipuninni. Í tilkynningu ESA segir að sú tilskipun hafi verið túlkuð af Evrópudómstólnum á þann veg að hún feli í sér skyldu fyrir vinnuveitendur í EES ríkjum til að setja upp hlutlægt, áreiðanlegt og aðgengilegt kerfi sem skráir vinnutíma starfsmanna.
„Að auki telur ESA að Ísland brjóti gegn 7. grein EES-samningsins sem felur í sér skyldu ríkja til að innleiða tilskipanir EES-samningsins að fullu.“
Formlegt áminningarbréf er fyrsta skrefið í samningsbrotaferli gegn EES EFTA-ríki. Ísland hefur nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli með málið lengra.