Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf í dag formlega rannsókn á meintri ríkisaðstoð í tengslum við tvo samninga um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands fyrir læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu.
Í kvörtun sem barst ESA í maí 2023 er því haldið fram að núverandi samningar um greiðsluþátttöku fyrir læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu kunni að brjóta í bága við EES reglur um ríkisaðstoð.
Læknisfræðileg myndgreining er notuð af læknum til að fá ýmsar myndir af líkamshlutum í greiningar- eða meðferðarskyni en kvörtunin nær til samninga heilbrigðisráðuneytisins á vegum Sjúkratrygginga Íslands við tvö fyrirtæki sem veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu.
Um er að ræða samninga við Læknisfræðilega Myndgreiningu og Íslenska Myndgreiningu.
Samkvæmt kvörtuninni hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt umfram markaðsverð fyrir myndgreiningar til þessara tveggja fyrirtækja, sem hafi valdið röskun á samkeppni.
„Svo virðist sem verðið hafi ekki verið ákveðið á markaðsforsendum, þar sem skortur virðist vera á kostnaðargreiningu auk þess sem að núverandi viðmið eru ónákvæm, ógagnsæ og órökstudd. Enn fremur virðist sem íslensk stjórnvöld hafi greitt í kringum 15% meira fyrir þjónustuna frá ÍM og LM, í samanburði við verð sem greitt er til þriðja aðila sem veitir sambærilega þjónustu,“ segir í tilkynningu frá ESA.
Sjúkratryggingar Íslands hafa frá árinu 1995 aðeins samið við þrjá þjónustuaðila um myndgreiningarþjónustu.
Samningarnir við ÍM og LM voru gerðir án útboðs eða samkeppni milli aðila um framlagningu tilboða og á þessu stigi málsins þykir ESA óljóst hvernig samið var um verð fyrir þjónustuna sem þessir tveir aðilar bjóða.
ESA mun því rannsaka hvort samningarnir feli í sér ríkisaðstoð og, ef svo er, hvort slík aðstoð samrýmist EES-reglum.