Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur sent umhverfisráðuneytinu erindi um flokkun Búrfellslundar í nýtingaflokk rammaáætlunar út frá þeim sjónarmiðum að virkjunarkosturinn væri á hendi opinbers fyrirtækis og hvort það samræmist regluverki Evrópusambandsins. Þá setur ESA spurningarmerki við virkni rammaáætlunar sökum þessa.
Þetta kom fram í máli Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í umræðum á Alþingi í gær um þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða - þriðja áfanga rammaáætlunar - sem samþykkt var vorið 2022.
Þingsályktunartillagan sem ráðherra hefur nú lagt fram kveður á um endurmat á flokkun virkjunarkosta sem færðir voru úr verndarflokki í biðflokk við afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar.
Í umræðunum á þingi benti ráðherrann á að vanda þyrfti til verka við flokkun kosta í biðflokk, og vísaði þar einna helst til Héraðsvatna, en það eigi ekki síður við um flokkun í nýtingarflokk. Í því samhengi benti hann á Búrfellslund, vindorkukost Landsvirkjunar sem færður var úr biðflokki í nýtingarflokk vorið 2022. Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu þriðja áfanga var meðal annars áhersla lögð á að virkjunarkosturinn væri á hendi opinbers fyrirtækis.
„Varðandi Búrfellslund þá var hann settur í nýtingarflokk, sem við studdum og var mjög gott skref. Þar held ég reyndar að rökstuðningur Alþingis sé að einhverju leyti að koma okkur í vandræði því að nú til dæmis liggur bréf frá eftirlitsstofnun EFTA niður í ráðuneyti þar sem er verið að spyrja sérstaklega um þetta, um þann gjörning Alþingis að setja tiltekinn kost í nýtingarflokk út frá sjónarmiðum um að þarna sé opinber aðili sem er með viðkomandi virkjunarkost. Þetta þykir skjóta skökku við út frá Evrópuregluverki og það eru að koma fram spurningar um virkni rammaáætlunar út frá einmitt þessu,“ sagði Jóhann Páll í andsvari við fyrirspurn þingmanns Miðflokksins.
„Þannig að um leið og ég hvet umhverfis- og samgöngunefnd til að skoða mjög rækilega þessa virkjunarkosti og gæta ákveðinnar varfærni bæði þegar kemur að því að setja eitthvað í nýtingarflokk og þegar kemur að því að setja eitthvað í verndarflokk, þá hvet ég líka til þess að hvers kyns rökfærslur séu rökstuddar mjög kirfilega og vel,“ sagði hann enn fremur.
Andsvar ráðherrans í heild má finna í myndbrotinu hér fyrir neðan.
Verkefni einkafyrirtækja öll í biðflokk
Í ljósi fyrirspurnar ESA er einnig vert að nefna að verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar kynnti í samráðsgátt stjórnvalda skömmu fyrir áramót drög að flokkun tíu vindorkukosta, þar sem lagt var til að allir kostirnir yrðu settir í biðflokk, þar af tveir kostir sem höfðu áður verið settir í nýtingarflokk.
Kostirnir höfðu það allir sameiginlegt að þeir voru á forræði einkafyrirtækja. Verkefnisstjórnin vísaði ítrekað í rökstuðningi sínum fyrir flokkun virkjunarkostanna að framtíðar stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum væri ekki lokið.
Hvergi var minnst á að tvö vindorkuverkefni, Búrfellslundur og Blöndulundurhafi, sem bæði eru á forræði ríkisfyrirtækisins, væru þegar í nýtingarflokki.
Breytingar á lögum um rammaáætlun í vinnslu
Ráðuneytið vinni nú að því að svara fyrirspurn ESA um hvort það sé forsvaranlegt að stjórnvöld ákveði sérstaklega að tiltekinn vindorkukostur fari í nýtingarflokk vegna þess að hann sé á hendi opinbers aðila.
„Þannig ég vil bara ítreka að við þurfum að vanda okkur þegar við tökum ákvarðanir hér inni í nefnd og í þessum sal um röðun virkjunarkosta,“ sagði ráðherrann. Að lokum benti hann á að von væri á þingsályktunartillögu um fjórða áfanga rammaáætlunar í vor.
„Vegna þess að hér erum líka að tala um kerfið almennt og þessa löggjöf um verndar- og orkunýtingaráætlun þá eru ákveðnar breytingar á því og í raun mjög afgerandi breytingar á þeim lögum núna til skoðunar og í vinnslu í ráðuneytinu.“