Evrópusambandið mun sekta tæknirisann Apple um 500 milljónir evra, eða sem nemur um 75 milljörðum króna, fyrir meint brot á evrópskum samkeppnislögum.

Þetta herma heimildir Financial Times en miðillinn segir að sektin verði gerð opinber í byrjun næsta mánaðar.

Á síðasta ári sakaði Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins Apple um samkeppnishamlandi tilburði á tónlistarstreymismarkaði með því að sýna verð á tilteknum tónlistarvörum aðeins á eigin markaðstorgi og vísa ekki á fleiri möguleika.

Hvorki Apple né Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vildi tjá sig um málið er Financial Times leitaði viðbragða.