Evrópusambandið hyggst verða stærsti fjárfestirinn í vatnsaflsvirkjuninni Rogun í Tadsíkistan. Embættismenn innan ESB sögðu við Reuters að fjárfestingin eigi bæði að hjálpa Mið-Asíu að öðlast orkusjálfsstæði frá Rússlandi og vera svar sambandsins við Belti og braut, verkefni kínverskra stjórnvalda.
Framkvæmdir að Rogun vatnsaflsvirkjuninni hófust árið 2016. Áætlanir gera ráð fyrir að virkjunin kosti um 8 milljarða dala, eða þúsund milljarða króna, en í síðasta mánuði voru heildarútgjöld komin í þrjá milljarða dala. Rogun virkjunin stendur við stíflu sem er 335 metrar að hæð en við framkvæmdalok verður hún sú hæsta í heimi að sögn byggingaraðila.
Fram til þess hefur Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB), lánastofnun ESB, ekki komið að fjármögnun verkefnisins. Talsmaður EIB sagði að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi á dögunum beðið bankann um að verða „stærsti fjárfestirinn“ í verkefninu en vildi ekki gefa upp umfang fjárfestingarinnar.
Hingað til hefur verkefnið verið fjármagnað af stórum hluta með skuldabréfaútgáfu tadsíska ríkissjóðsins og lánum frá einkaaðilum. Stjórnvöld í Dushanbe, höfuðborg Tadsíkistan, hafa óskað eftir fjárhagslegri og tæknilegri aðstoð frá Evrópusambandinu, samkvæmt heimildum Reuters.