Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst leggja til að refsitollar verði lagðir á Boeing flugvélar ef viðræður við ríkisstjórn Bandaríkjanna skila ekki árangri. Financial Times greinir frá.
Framkvæmdastjórnin, sem markar viðskiptastefnu ESB, stefnir á að farþegaþotur verði á lista yfir árlegan innflutning frá Bandaríkjunum að andvirði 100 milljarðar dala, sem refsitollum sambandsins verður miðað að, samkvæmt tveimur heimildarmönnum FT.
Þeir áréttuðu báðir að umræddir refsitollar tækju aðeins gildi ef ekki næst árangur í viðræðum ESB við Bandaríkin um að lækka tolla á vörur frá Evrópu til Bandaríkjanna. Jafnframt verði meirihluti aðildarríkja ESB að samþykkja ráðstöfunina.
Þann 2. apríl síðastliðinn lagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á 20% lágmarkstoll á nánast allan útflutning frá ESB. Nokkrum dögum síðar lækkaði hann hlutfallið niður í 10% í 90 daga til að veita svigrúm til viðræðna. 25% tollar Bandaríkjanna á innflutt stál, ál og bifreiðar frá Evrópuríkjum er þó enn í gildi.
Evrópusambandið frestaði jafnframt gildistöku refsitolla á bandarískar vörur að andvirði 21 milljarður dala árlega, þar á meðal Harley-Davidson mótorhjól, alifuglakjöt og fatnað, til 14. júlí til að liðka fyrir viðræðunum.
Nýju refsitollar ESB sem eru nú til skoðunar, sem gætu náð til flugþota og mögulega efnavara myndi sennilega taka gildi um það leytið nema ef samningur milli ESB og Bandaríkjanna næst.