Flugöryggisstofnun ESB kallar nú eftir öryggisskoðun á öllum Airbus A350-flugvélum í kjölfar bilunar í hreyfli sem kom upp í vikunni hjá flugfélaginu Cathay Pacific. Vélin var á leið frá Zurich til Hong Kong og neyddist til að snúa við vegna bilunarinnar.
Fyrirskipunin var gefin út í gær en þar er krafist þess að allir hreyflar verði skoðaðir til að athuga hvort skemmdir gætu leynst á Rolls-Royce Trent XWB-97 hreyflum sem Airbus A350-1000-vélarnar notast við.
„Þessi aðgerð er varúðarráðstöfun sem er byggð á upplýsingum sem komu frá fyrstu rannsókn á atvikinu með Cathay Pacific og niðurstöðum flugfélagsins í eigin rannsókn,“ segir Florian Guillermet, framkvæmdastjóri stofnunarinnar.
Öryggisskoðunin mun þurfa að fara fram á næstu þremur til 30 dögum en alls eru 86 A350-1000 flugvélar í notkun á heimsvísu.
Skoðanir Cathay Pacific leiddu í ljós að 15 A350-flugvélar á vegum félagsins reyndust vera með eldsneytisleiðslur sem þurfti að skipta út. Cathay segir að sex þessara flugvéla hefðu gengist undir viðgerð og fengið leyfi til að halda áfram flugi að svo stöddu.