Aðildarþjóðir Evrópusambandsins hafa komist að samkomulagi um verðþak á gas innan álfunnar frá og með 15. febrúar næstkomandi. Verðþakið miðar við 180 evrur á hverja megavattstund og tekur gildi ef markaðsverð er yfir viðmiðinu þrjá daga í röð.

Þýskaland var andvígt verðþakinu vegna ótta um að það gæti leitt til þess að gasbirgðum yrði beint frá Evrópu til annarra svæða. Þjóðverjar samþykktu tillöguna að lokum eftir að ákvæðum var bætt við sem eiga að tryggja að hægt verði að fjarlægja þakið með snöggum hætti ef hætta er á gasskorti.

Holland og Austurríki, sem voru einnig andvíg þakinu, sátu hjá í atkvæðagreiðslunni og Ungverjaland kaus gegn tillögunni.

Markaðsaðilar, þar á meðal ICE sem heldur úti markaði fyrir evrópska TTF gassamninga, hafa varað við því að verðþak muni leiða til aukinna sveiflna á markaðnum þar sem fjárfestar myndu hreyfa sig í kringum það með viðskiptum utan markaða.

Verðið lækkaði um 8%

Verðþakið mun í fyrstu ná til gassamninga á öllum evrópskum viðskiptamiðstöðvum fyrir birgðir frá einum mánuði og allt að einu ári fram í tímann. Verðið þarf auk þess að vera 35 evrur á megavattstund yfir meðalverði á fljótandi jarðgasi svo að verðþakið taki gildi.

Verð á eins mánaðar framvirkum gassamningum á hollenska markaðnum lækkaði um 8%, niður í 107 evrur á megavattstund, eftir tilkynninguna. Til samanburðar fór verðið hæst í 340 evrur í ágúst en var í 69 evrum í árslok 2021.