Fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins hefur sektað tæknirisana App­le og Meta um sam­tals 700 milljónir evra og krafist þess að þeir hætti við­skipta­háttum sem taldir eru skerða sam­keppni. Að­gerðin vekur at­hygli í ljósi þess að ESB og Bandaríkin eru með viðkvæmar viðræður um nýjan fríverslunar­samning í gangi.

App­le fékk sekt upp á 500 milljónir evra, sem jafn­gildir um það bil 72,5 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins, en Meta Plat­forms var sektað um 200 milljónir evra sem jafn­gildir um 29 milljörðum.

Báðum fyrir­tækjunum voru jafn­framt send fyrir­mæli um að hætta ákveðinni hátt­semi sem fram­kvæmda­stjórnin telur brjóta gegn nýjum sam­keppnislögum á stafrænum mörkuðum, sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Að­gerðirnar byggja á reglu­verkinu Digi­tal Markets Act, sem tók gildi árið 2022. Mark­mið laganna er að tryggja smærri fyrir­tækjum betri að­gang að stafrænum mörkuðum og sporna við ein­okun.

Brot á lögunum geta leitt til sekta sem nema allt að 10% af heildar­tekjum fyrir­tækja á heims­vísu, en sektirnar nú voru þó langt undir því – eða um 0,1% af ár­sveltu hvors fyrir­tækis um sig.

App Stor­e og sér­sniðnar aug­lýsingar undir smá­sjá

App­le er gert að fjar­lægja þær tækni­legu og við­skipta­legu hindranir sem tak­marka mögu­leika hönnuða snjallsíma­forrita til að upp­lýsa not­endur um ódýrari og val­kvæmar leiðir til að kaupa stafrænar vörur utan App Stor­e.

Þetta snertir kjarna­hluta við­skiptalíkans App­le, sem fær hlut­fall af öllum sölum innan App Stor­e.

Meta er sak­fellt fyrir að hafa í fyrra gert evrópskum not­endum að samþykkja sér­sniðnar aug­lýsingar á Insta­gram og Face­book eða greiða fyrir aug­lýsinga­lausa áskrift.

Fram­kvæmda­stjórnin skoðar enn hvort nýr val­kostur sem Meta hefur boðið, þar sem not­endur geta valið „minna sér­sniðnar“ aug­lýsingar án greiðslu, sé í samræmi við fyrir­mælin.

Tæknirisarnir áfrýja

App­le hyggst áfrýja ákvörðuninni og segir hana hluta af ósann­gjörnum að­gerðum sem grafi undan öryggi og friðhelgi einkalífs not­enda. Í yfir­lýsingu sagði fyrir­tækið:

„Þetta er slæmt fyrir vörurnar okkar, slæmt fyrir not­enda­upp­lifunina og neyðir okkur til að af­henda tæknina okkar án endur­gjalds.“

Meta hyggst einnig leita réttar síns. Joel Kaplan, að­stoðar­for­stjóri Meta og yfir­maður alþjóðamála, sagði að fram­kvæmda­stjórnin væri í raun að leggja „milljarða dollara toll“ á fyrir­tækið með því að neyða það til að breyta við­skiptalíkani sínu.

Tíma­setning vekur at­hygli

Ákvörðun fram­kvæmda­stjórnarinnar kemur á viðkvæmum tíma þar sem ESB stendur í viðræðum við stjórn Trumps um nýjan við­skipta­samning.

Sam­kvæmt heimildum Wall Street Journal var upp­haf­lega á­formað að til­kynna sektirnar 15. apríl, en því var frestað vegna fundar Maroš Šefčovič, við­skipta­stjóra ESB, með bandarískum ráðamönnum og fundar Giorgiu Meloni, for­sætis­ráðherra Ítalíu, með Donald Trump tveimur dögum síðar.

Trump lýsti eftir fundinn með Meloni yfir þeirri skoðun að það væru „engar stór­vægi­legar hindranir“ fyrir því að ná við­skipta­samningi við Evrópu­sam­bandið.