Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sektað tæknirisana Apple og Meta um samtals 700 milljónir evra og krafist þess að þeir hætti viðskiptaháttum sem taldir eru skerða samkeppni. Aðgerðin vekur athygli í ljósi þess að ESB og Bandaríkin eru með viðkvæmar viðræður um nýjan fríverslunarsamning í gangi.
Apple fékk sekt upp á 500 milljónir evra, sem jafngildir um það bil 72,5 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins, en Meta Platforms var sektað um 200 milljónir evra sem jafngildir um 29 milljörðum.
Báðum fyrirtækjunum voru jafnframt send fyrirmæli um að hætta ákveðinni háttsemi sem framkvæmdastjórnin telur brjóta gegn nýjum samkeppnislögum á stafrænum mörkuðum, samkvæmt The Wall Street Journal.
Aðgerðirnar byggja á regluverkinu Digital Markets Act, sem tók gildi árið 2022. Markmið laganna er að tryggja smærri fyrirtækjum betri aðgang að stafrænum mörkuðum og sporna við einokun.
Brot á lögunum geta leitt til sekta sem nema allt að 10% af heildartekjum fyrirtækja á heimsvísu, en sektirnar nú voru þó langt undir því – eða um 0,1% af ársveltu hvors fyrirtækis um sig.
App Store og sérsniðnar auglýsingar undir smásjá
Apple er gert að fjarlægja þær tæknilegu og viðskiptalegu hindranir sem takmarka möguleika hönnuða snjallsímaforrita til að upplýsa notendur um ódýrari og valkvæmar leiðir til að kaupa stafrænar vörur utan App Store.
Þetta snertir kjarnahluta viðskiptalíkans Apple, sem fær hlutfall af öllum sölum innan App Store.
Meta er sakfellt fyrir að hafa í fyrra gert evrópskum notendum að samþykkja sérsniðnar auglýsingar á Instagram og Facebook eða greiða fyrir auglýsingalausa áskrift.
Framkvæmdastjórnin skoðar enn hvort nýr valkostur sem Meta hefur boðið, þar sem notendur geta valið „minna sérsniðnar“ auglýsingar án greiðslu, sé í samræmi við fyrirmælin.
Tæknirisarnir áfrýja
Apple hyggst áfrýja ákvörðuninni og segir hana hluta af ósanngjörnum aðgerðum sem grafi undan öryggi og friðhelgi einkalífs notenda. Í yfirlýsingu sagði fyrirtækið:
„Þetta er slæmt fyrir vörurnar okkar, slæmt fyrir notendaupplifunina og neyðir okkur til að afhenda tæknina okkar án endurgjalds.“
Meta hyggst einnig leita réttar síns. Joel Kaplan, aðstoðarforstjóri Meta og yfirmaður alþjóðamála, sagði að framkvæmdastjórnin væri í raun að leggja „milljarða dollara toll“ á fyrirtækið með því að neyða það til að breyta viðskiptalíkani sínu.
Tímasetning vekur athygli
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur á viðkvæmum tíma þar sem ESB stendur í viðræðum við stjórn Trumps um nýjan viðskiptasamning.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal var upphaflega áformað að tilkynna sektirnar 15. apríl, en því var frestað vegna fundar Maroš Šefčovič, viðskiptastjóra ESB, með bandarískum ráðamönnum og fundar Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, með Donald Trump tveimur dögum síðar.
Trump lýsti eftir fundinn með Meloni yfir þeirri skoðun að það væru „engar stórvægilegar hindranir“ fyrir því að ná viðskiptasamningi við Evrópusambandið.