Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu í dag tillögu framkvæmdaráðs ESB um að leggja á refsitolla á fjölda vörutegunda frá Bandaríkjunum frá og með 15. apríl næstkomandi.

Umræddar aðgerðir eru svar við tollahækkunum ríkisstjórnar Trump á innflutt stál og ál frá aðildarríkjum Evrópusambandsins í síðasta mánuði, að því er segir í tilkynningu á vef framkvæmdaráðsins

„ESB telur tolla Bandaríkjanna óréttlætanlega og skaðlega, en þeir hafi neikvæð efnahagsleg áhrif á báða aðila ásamt öllu heimshagkerfinu. ESB hefur lýst því yfir að það vilji helst komast að sameiginlegri niðurstöðu með Bandaríkjunum sem yrði í hag beggja aðila.“