Evrópusambandið (ESB) íhugar að beita þjónustugeira Bandaríkjanna viðskiptalegum refsiaðgerðum til að bregðast við 25% tollum sem Donald Trump hefur boðað á bílaiðnaðinn. Jafnframt hefur hann tilkynnt um frekari aðgerðir sem kynntar verða í næstu viku.

Brussel hefur þegar kynnt viðbótartolla á allt að 26 milljarða evra virði af bandarískum vörum vegna stál- og áltolla Bandaríkjanna.

Samkvæmt Financial Times telja evrópskir embættismenn og diplómatar hins vegar að umfang aðgerða Trump-stjórnarinnar kalli á enn öflugri mótvægisaðgerðir.

ESB hefur víðtækar heimildir til að grípa til viðskiptaaðgerða, svo sem að takmarka hugverkaréttindi bandarískra fyrirtækja og útiloka þau frá opinberum útboðum innan sambandsins.

Slík úrræði voru styrkt með breytingu á löggjöf ESB árið 2021 í kjölfar fyrri viðskiptadeilna við Bandaríkin.

„Bandaríkja­menn telja sig hafa yfir­burði í þessari við­skipta­deilu, en við höfum einnig úrræði til að svara fyrir okkur,“ segir einn diplómati ESB við FT og bætti við að mark­miðið væri þó að deilan þróaðist í átt að heildar­sam­komu­lagi frekar en frekari ágreiningi.

Eitt af mögu­legum skrefum sem ESB gæti tekið er að skerða réttindi tækni­fyrir­tækja eins og Goog­le, App­le og Micros­oft til að nýta hug­verkaréttindi sín innan Evrópu.

Önnur hugsan­leg að­gerð væri að banna Elon Musk að veita Star­link-gervi­hnatta­kerfi sín til evrópskra stjórn­valda. Ítölsk stjórn­völd eru nú þegar að endur­skoða mögu­leg kaup á kerfinu.

„Þjónustu­geirinn er veik­leiki Bandaríkjanna,“ sagði annar diplómati ESB.

Bandaríkin voru með 109 milljarða evra af­gang í þjónustu­við­skiptum við ESB árið 2023, á meðan vöru­skiptin voru í miklum halla, eða um 157 milljörðum evra.

„Viðskiptavopn“ ESB

Sumir sérfræðingar telja að ESB þurfi að grípa til harðari viðskiptalegra úrræða, eins og svokallaðs „viðskiptaskotvopns“ sambandsins (anti-coercion instrument, ACI).

Með því mætti takmarka starfsemi bandarískra banka, fella úr gildi einkaleyfi eða koma í veg fyrir að bandarísk fyrirtæki gætu innheimt greiðslur fyrir hugbúnaðaruppfærslur eða streymisþjónustu innan ESB.

„Ég myndi mæla með að framkvæmdastjórn ESB nýti sér ACI,“ sagði Ignacio García Bercero, fyrrverandi háttsettur embættismaður í Evrópusambandinu sem leiddi viðræður um fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna (TTIP), sem lauk án niðurstöðu.

Framhaldið er í höndum aðildarríkjanna

Öll viðskiptaleg viðbrögð ESB yrðu samin af framkvæmdastjórninni en þarf að hljóta samþykki aðildarríkja sambandsins með atkvæðagreiðslu. Enn er unnið að lista yfir bandarískar vörur sem eiga að sæta viðskiptalegum aðgerðum vegna stál- og áltolla Bandaríkjanna.

Frakkar hafa meðal annars þrýst á um að bourbon verði tekið af listanum til að vernda eigin drykkjarvöruiðnað.

Tollar á bandarískar vörur, sem innihalda meðal annars gallabuxur, mótorhjól og hugsanlega sojabaunir, verða til umræðu hjá leiðtogum ESB-ríkja áður en endanleg ákvörðun verður tekin fyrir 12. apríl.

Diplómatar og embættismenn ESB telja að ef Bandaríkin ráðist í frekari tolla, sem Brussel áætlar að verði um 20%, sé svigrúm fyrir viðbótaraðgerðir á vörur eins og flugvélar, efnavörur og lyf.