Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 3,6% í um 402 milljón króna viðskiptum í dag en fyrsta Airbus vél í sögu flugfélagsins lenti á Keflavíkurflugvelli rétt eftir hádegi.
Flugvélin er af gerðinni A321LR og á félagið von á þremur sömu tegundar til viðbótar fyrir sumarið 2025.
Flugvélin er með skráningarnúmerið TF-IAA og ber nafnið Esja.
Dagslokagengi Icelandair var 1,29 krónur og hefur ekki verið hærra síðan í febrúar.
Gengi Icelandair hefur nú hækkað um tæp 19% síðastliðinn mánuð.
Hlutabréfaverð Skeljar leiddi hækkanir á aðalmarkaði er gengi fjárfestingafélagsins fór upp um rúm 4% í 136 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Skeljar var 17,1 króna.
Gengi málmleitarfélagsins Amaroq leiddi lækkanir er gengi félagsins fór niður um 2,5% í lítilli veltu. Hlutabréfaverð Amaroq hefur verið á miklu skriði frá því að félagið fór að framleiða gull fyrir skömmu.
Gengið fór í 153 krónur í lok nóvember og hafði þá aldrei verið hærra en eftir lækkanir síðustu tvo viðskiptadaga stendur gengið í 147,25 krónum.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,23% og var heildarvelta 4,5 milljarðar.