Þetta er skemmtilegt og lifandi fjölskyldufyrirtæki“ segir Fríða Birna Þráinsdóttir rekstrarstjóri, sem tók við rekstri Baulunnar í Borgarfirði á dögunum undir merkjum Esjuskálans.

„Auðvitað fer það öfugt ofan í suma að Esjuskálinn standi í Borgarfirði, en fólk er farið að þekkja vörumerkið og veit að hverju það gengur. “ Fríða Birna hefur rekið Esjuskálann í Kjalarnesi ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Árna Guðlaugssyni og tveimur dætrum, þeim Rósmarý og Regínu frá árinu 2019. Rósmarý sér um reksturinn á Kjalarnesi en Fríða og Regína standa vaktina í Baulu. Starfsmenn eru samtals sextán hjá fyrirtækinu.

„Það er búið að opna grillið í Baulu og er matseðillinn í þróun, nú er boðið upp á hamborgara, vefjur og salöt en von er á að fiskur og franskar, snitsel og  lambakótelettur bætist við seðilinn. Því til viðbótar er boðið upp á samlokur smurðar á staðnum og kjötsúpu.“

Fríða tók við Esjuskálanum, Kjalarnesi árið 2019 þar er boðið upp á kjötsúpu, smurðar samlokur, langlokur og pylsur. Það stoppa töluvert fleiri í Baulunni en á Kjalarnesi og Fríða kennir lélegu aðgengi að Kjalarnesi meðal annars um. „Með þeim framkvæmdum sem eru á þjóðveginum núna mun koma hringtorg og þá verður miklu auðveldara að renna inn í sjoppuna.  Viðskiptavinirnir sem koma við hér á Kjalarnesi er helst fólkið í hverfinu, Kjósinni og svo auðvitað ferðalangar bæði á leiðinni í og úr bænum. Nýlega opnuðum við pakkaport Póstsins við sjoppuna sem nýtist vel fyrir íbúa  bæði hér og í Kjósinni."

„Esjuskálinn er orðin mjög vinsæl sjoppa, og jafnvel uppáhaldssjoppa margra, við bjóðum upp á mikið af nammi sem við flytjum inn sjálf og fleiri fjölbreyttar vörur, til dæmis leikföng fyrir krakka sem vinsælt er að taka með upp í bústað eða útileguna.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.