Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) hefur varað við því að áform Evrópusambandsins um að einfalda reglugerðarumhverfið kunni að mæta andstöðu frá eftirlitsstofnunum sambandsríkjanna.
Samkvæmt Financial Times leitast ESMA við að fá aukin völd til að samræma reglur innan sambandsins og bæta eftirlit með stærstu kauphöllum og fjármálafyrirtækjum sem starfa á milli landamæra innan ESB.
Verena Ross, formaður ESMA, sagði í samtali við Financial Times að draga úr kröfum fjármálafyrirtækja yrði flókið verkefni þar sem þjóðlegar eftirlitsstofnanir séu oft bundnar sínum eigin „gullhúðuðu“ reglum.
Þá séu margar þeirra tregðar til að fjármagna sameiginlegt eftirlitskerfi.
„Eina leiðin til að ná þessu markmiði er ef þjóðleg yfirvöld leggja sitt af mörkum við að fjármagna og þróa þetta kerfi,“ sagði Ross. „Í mörgum tilvikum hafa lönd sín eigin innlendu kerfi, sem gerir samræmingu flókna.“
Ummæli Ross varpa ljósi á þær áskoranir sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, stendur frammi fyrir í tilraunum sínum til að draga úr reglugerðaflóði ESB með nýrri „omnibus“-löggjöf sem áætlað er að kynna síðar í þessum mánuði.
Styrking ESMA á dagskrá
Maria Luís Albuquerque, nýr framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefur einnig lýst yfir stuðningi við einföldun reglna og styrkingu ESMA til að gera stofnunina að evrópskri útgáfu af bandaríska verðbréfaeftirlitinu (SEC).
Áformin komaí kjölfar viðvarana frá Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, um að of mikil reglusetning ógni samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja.
Þrýstingurinn á einföldun reglna hefur aukist eftir að Donald Trump hóf að afregluvæða Bandaríkin.
Í sameiginlegri grein í Financial Times lýstu von der Leyen og Christine Lagarde, forseti Evrópska seðlabankans, því yfir að Evrópa hefði „fengið skilaboðin“ um mikilvægi þess að draga úr skriffinnsku og lofað „fyrirhafnarmikilli einföldun“ sem hefst næsta mánuð.
ESMA vinnur nú að samræmdu skýrslukerfi sem gerir fyrirtækjum kleift að skila sjálfbærni- og fjármálagögnum aðeins einu sinni, en Ross segir að „við fáum stundum upplýsingar frá fyrirtækjum sem við þurfum ekki“.
Stofnunin hyggst koma á fót „einu miðlægu aðgangskerfi“ sem sameinar innlend gagnaskil frá fjármálafyrirtækjum í ESB, þar á meðal sjálfbærniskýrslur og kynningargögn skuldabréfa og hlutabréfa.
Þrátt fyrir að ESMA hafi verið stofnuð árið 2011 til að samræma fjármálamarkaði innan ESB hefur stofnunin enn takmarkað beint eftirlit.
Hún hefur beint eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum, miðlægum vörslumiðstöðvum utan ESB, skráningarmiðstöðvum verðbréfatrygginga og viðmiðunarvísitölustofnunum.
„Mörg lönd hafa sín eigin skýrslukerfi, annaðhvort ofan á eða aukalega við evrópska kerfið,“ sagði Ross. „Fyrir fyrirtæki sem starfa í mörgum aðildarríkjum er þetta mikill höfuðverkur.“
Á viðburði ESMA í París hvatti Albuquerque til meiri samhæfingar reglna og kallaði eftir „jafnræði á markaði“ til að draga úr markaðsbrotum, einfalda ferla og fjarlægja hindranir.
Hún lagði áherslu á að ESMA myndi gegna „lykilhlutverki“ í þessum áformum, en hlutverk stofnunarinnar verður endurskoðað á næstunni.
„Þetta þýðir ekki endilega einn sameiginlegan eftirlitsaðila,“ sagði hún. „En ég tel mikilvægt að hafa skilvirkt, samhæft og samræmt eftirlit þar sem rekstraraðili á Ítalíu má búast við sömu ákvörðun og í Eistlandi í sambærilegu máli.“