Evrópska verðbréfa­markaðs­eftir­lits­stofnunin (ESMA) hefur varað við því að áform Evrópu­sam­bandsins um að ein­falda reglu­gerðar­um­hverfið kunni að mæta and­stöðu frá eftir­lits­stofnunum sam­bands­ríkjanna.

Sam­kvæmt Financial Times leitast ESMA við að fá aukin völd til að samræma reglur innan sam­bandsins og bæta eftir­lit með stærstu kaup­höllum og fjármálafyrirtækjum sem starfa á milli landa­mæra innan ESB.

Verena Ross, for­maður ESMA, sagði í sam­tali við Financial Times að draga úr kröfum fjár­mála­fyrir­tækja yrði flókið verk­efni þar sem þjóð­legar eftir­lits­stofnanir séu oft bundnar sínum eigin „gull­húðuðu“ reglum.

Þá séu margar þeirra tregðar til að fjár­magna sam­eigin­legt eftir­lits­kerfi.

„Eina leiðin til að ná þessu mark­miði er ef þjóð­leg yfir­völd leggja sitt af mörkum við að fjár­magna og þróa þetta kerfi,“ sagði Ross. „Í mörgum til­vikum hafa lönd sín eigin inn­lendu kerfi, sem gerir samræmingu flókna.“

Um­mæli Ross varpa ljósi á þær áskoranir sem Ur­sula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB, stendur frammi fyrir í til­raunum sínum til að draga úr reglu­gerðaflóði ESB með nýrri „omni­bus“-löggjöf sem áætlað er að kynna síðar í þessum mánuði.

Styrking ESMA á dag­skrá

Maria Luís Al­buqu­erqu­e, nýr fram­kvæmda­stjóri fjár­málaþjónustu hjá fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins, hefur einnig lýst yfir stuðningi við ein­földun reglna og styrkingu ESMA til að gera stofnunina að evrópskri út­gáfu af bandaríska verðbréfaeftirlitinu (SEC).

Áformin komaí kjölfar viðvarana frá Mario Draghi, fyrr­verandi seðla­banka­stjóra Evrópu, um að of mikil reglu­setning ógni sam­keppnis­hæfni evrópskra fyrir­tækja.

Þrýstingurinn á ein­földun reglna hefur aukist eftir að Donald Trump hóf að af­reglu­væða Bandaríkin.

Í sam­eigin­legri grein í Financial Times lýstu von der Leyen og Christine Lagar­de, for­seti Evrópska seðla­bankans, því yfir að Evrópa hefði „fengið skila­boðin“ um mikilvægi þess að draga úr skrif­finnsku og lofað „fyrir­hafnar­mikilli ein­földun“ sem hefst næsta mánuð.

ESMA vinnur nú að samræmdu skýrslu­kerfi sem gerir fyrir­tækjum kleift að skila sjálf­bærni- og fjár­málagögnum aðeins einu sinni, en Ross segir að „við fáum stundum upp­lýsingar frá fyrir­tækjum sem við þurfum ekki“.

Stofnunin hyggst koma á fót „einu miðlægu að­gangs­kerfi“ sem sam­einar inn­lend gagnaskil frá fjár­mála­fyrir­tækjum í ESB, þar á meðal sjálf­bærniskýrslur og kynningargögn skulda­bréfa og hluta­bréfa.

Þrátt fyrir að ESMA hafi verið stofnuð árið 2011 til að samræma fjár­mála­markaði innan ESB hefur stofnunin enn tak­markað beint eftir­lit.

Hún hefur beint eftir­lit með láns­hæfis­mats­fyrir­tækjum, miðlægum vörslumiðstöðvum utan ESB, skráningar­miðstöðvum verðbréfa­trygginga og viðmiðunar­vísitölu­stofnunum.

„Mörg lönd hafa sín eigin skýrslu­kerfi, annaðhvort ofan á eða auka­lega við evrópska kerfið,“ sagði Ross. „Fyrir fyrir­tæki sem starfa í mörgum aðildarríkjum er þetta mikill höfuð­verkur.“

Á viðburði ESMA í París hvatti Al­buqu­erqu­e til meiri sam­hæfingar reglna og kallaði eftir „jafn­ræði á markaði“ til að draga úr markaðs­brotum, ein­falda ferla og fjar­lægja hindranir.

Hún lagði áherslu á að ESMA myndi gegna „lykil­hlut­verki“ í þessum áformum, en hlut­verk stofnunarinnar verður endur­skoðað á næstunni.

„Þetta þýðir ekki endi­lega einn sam­eigin­legan eftir­lit­saðila,“ sagði hún. „En ég tel mikilvægt að hafa skil­virkt, sam­hæft og samræmt eftir­lit þar sem rekstraraðili á Ítalíu má búast við sömu ákvörðun og í Eist­landi í sam­bæri­legu máli.“