Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Euneo Health hlaut nýverið fjórar viðurkenningar á Íslensku vefverðlaununum, þar á meðal Verkefni ársins og Stafræna lausn ársins. Auk þess var fyrirtækið valið upphlaupari í Tækninýtingu ársins og Innri vef ársins.
Verðlaunaafhendingin fór fram á föstudagskvöld við athöfn í Hörpu og samkvæmt tilkynningu voru þetta stærstu vefverðlaunin til þessa. Alls voru 70 verkefni tilnefnd í 15 mismunandi flokkum.
Euneo Health þróar stafræna lausn sem styður sjúkraþjálfara og skjólstæðinga þeirra. Smáforrit fyrirtækisins hjálpar skjólstæðingum að fylgja heimaæfingum og taka virkan þátt í eigin meðferð. Á meðan fá sjúkraþjálfarar kerfi sem einfaldar þeim lífið, gefur þeim betri innsýn í meðferðina og hjálpar þeim að styðja betur við skjólstæðinga á einfaldari hátt.
Daníel Már Friðriksson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins, segir það einstakan heiður að fá þessi verðlaun og að viðurkenningin endurspegli þann metnað og ástríðu sem lögð hefur verið í hverja einustu hlið Euneo frá upphafi.
„Við munum halda áfram að þróa lausnina í nánu samstarfi við sjúkraþjálfara og skjólstæðinga með það að markmiði að einfalda líf þeirra, styrkja tengslin sem skipta mestu máli í meðferð og stuðla að betri árangri,“ segir Daníel.