„Uppgjör bankamanns er mikilsverð og einlæg saga fjölskyldumanns, sem gerði þau afdrifaríku mistök að taka við starf forstjóra Glitnis banka rétt áður en alþjóðleg fjármálakreppa skall á,” segir á kápu bókarinnar Uppgjör bankamanns. Í bókinni lýsir Lárus Welding framgöngu ákæruvaldsins, sem hann segir að hafi gengið mjög hart fram á árunum eftir hrun en á tímabili þurfti hann að verjast á þriðja tug refsi- og einkamála.

Auk þess að veita áhugaverða innsýn í innsta hring íslensks fjármálalífs á árunum fyrir fall bankanna lýsir Lárus því sem gekk á eftir fall þeirra. Segir hann hann meðal annars á hreinskilinn hátt frá andlegum erfiðleikum sínum eftir fall Glitnis og hvernig hann viðurkenndi vanmátt sinn fyrir áfengi og tókst á við lífið þegar öll sund virtust lokuð.

Óhætt er að segja að Uppgjör bankamanns sé áhugaverð bók um mikla umbrotatíma í íslensku þjóðlífi. Í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið, er birt brot úr bókinni og geta áskrifendur þegar nálgast efnið hér. Á meðal þess sem kemur fram er þetta:

Stím-viðskiptin

Þarna, um miðjan nóvember 2007, var lokið við að koma saman hinum svokölluðu Stím-viðskiptum. Þau snerust í raun um að bankinn hafði í markaðsóróa haustsins eignast töluvert af eigin hlutum og hlutum í FL Group sem hann vildi selja.

Markaðsviðskiptum og fyrirtækjaráðgjöf bankans var falið að finna kaupendur að þessum hlutum í heild eða að hluta eins og venja var. Væntanlegir fjárfestar óskuðu eftir töluverðri lánsfjármögnun gegn eigin fjárframlagi og fyrirtækjaráðgjöfin hafði milligöngu um að láta viðskiptin ganga upp. Rétt er að taka það fram að á þessum tíma var bönkum heimilt að fjármagna kaup á eigin hlutum.

Eftir tvær afgreiðslur í áhættunefnd fengum við Alexander [innsk. Alexander K. Guðmundsson, fjármálstjóri Glitnis] fjármálastjóri umboð til að ljúka fjármögnuninni með vissum skilyrðum. Þetta kallaði á ófáa símafundi með mér í Rússlandi þar sem reynt var eftir fremsta megni að leysa úr þeirri stöðu sem upp var komin. Á endanum gengu viðskiptin í gegn og voru þau vel innan þess ramma sem áhættunefndin hafði samþykkt. Aldrei kom mér til hugar í þessum viðskiptum að við, sem komum að þeim, værum að gera eitthvað sem gengi gegn hagsmunum bankans eða hvað þá væri ólöglegt. Engu að síður átti ég síðar eftir að vera ákærður fyrir þessa lánveitingu.

Á annað hundrað milljónir

Embætti sérstaks saksóknara óx hratt þó að starfsemi þess hefði farið hægt af stað í byrjun. Þegar komið var fram á haustið 2010 störfuðu þar um 40 manns, auk verktaka. Stofnunin var þá þegar orðin margfalt stærri en efnahagsbrotadeild lögreglunnar hafði verið fyrir  bankahrunið.

Innan embættisins hafði þremur saksóknurum verið úthlutað hverjum sínum bankanum og voru sérstök teymi með hverjum þeirra. Milli þessara saksóknara virðist hafa myndast samkeppni um hver þeirra myndi ná mestum árangri svo að samkeppnin milli bankanna þriggja lifði framhaldslífi. Ég vissi það ekki þá en Hólmsteini Gauta Sigurðssyni saksóknara hafði verið úthlutað Glitni.

Í október tilkynnti Ólafur Þór Hauksson að Eva Joly væri hætt sem ráðgjafi hjá embættinu. Töldu sumir það mikinn sorgardag. Ég var ekki í þeirra hópi. Eva og hennar fólk fóru síðan af landi brott eftir að hafa þegið á annað hundrað milljónir króna í ráðgjafarlaun fyrir 21 mánaðar vinnu. Hún virtist hafa verið einlægt þeirrar skoðunar að bankamenn, hvar í heiminum sem þeir störfuðu, væru glæpamenn. Þetta var fagnaðarerindið sem hún boðaði hér á landi af mikilli ástríðu og mörg skoðanasystkini hennar tóku undir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag og geta áskrifendur lesið alla umfjöllunina hér.