Kínverski fasteignarisinn Evergrande Group vonast nú til að endurheimta 6 milljarða dala frá stofnanda fyrirtækisins og öðrum sem tengjast samsteypunni á meðan gjaldþrotaskipti þess standa yfir.
Í tilkynningu sem send var frá fyrirtækinu í gær segir að Evergrande Group sé nú að reyna að endurheimta fé frá sjö einstaklingum, þar á meðal stofnandanum Hui Ka Yan, fyrrum eiginkonu hans, fyrrum forstjóra og fyrrum fjármálastjóra.
Evergrande var skuldsettasta fasteignafyrirtæki í heimi og var tekið til gjaldþrotaskipta af dómstóli í Hong Kong í janúar. Markaðsvirði þess hafði lækkað um tæp 99% síðan í júlí 2020 en fyrirtækið var eitt sinn söluhæsti fasteignaframleiðandinn í Kína.
Fréttamiðillinn WSJ reyndi að ná í Hui til að fá athugasemdir en án árangurs. Félagið sagði þó að viðskipti með hlutabréf þess yrðu stöðvuð þar til annað kæmi í ljós.