Kínverski fasteignarisinn Evergrande hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta af dómstóli í Hong Kong en hann hafði fengið viðbótarfrest fyrir áramót til að semja við erlenda fjárfesta og forða sér frá gjaldþroti.
Linda Chan, dómari í málinu, segir að nú sé nóg komið og ljóst að fyrirtækið sé ekki með raunhæfa áætlun til að gera upp skuldir sínar en Evergrande er skuldsettasta fasteignafyrirtæki í heimi.
Hlutabréf Evergrande lækkuðu um meira en 20% í Hong Kong eftir að dómurinn féll í morgun. Viðskipti með bréf fyrirtækisins hafa verið stöðvuð.
Þegar Evergrande lenti fyrst í vanskilum fyrir tveimur árum síðan hafði það keðjuverkandi áhrif á alþjóðlega fjármálamarkaði. Fyrirtækið hefur síðan þá verið nokkurs konar andlit fasteignakreppunnar í Kína en það skuldar meira en 325 milljarða dali.
Shawn Siu, forstjóri Evergrande, segir ákvörðun dómstólsins sorglega en bætir við að fyrirtækið myndi halda áfram starfsemi sinni á meginlandinu. Starfsemi fyrirtækisins í Hong Kong var óháð starfsemi þess á meginlandinu.
Kínversk stjórnvöld hafa reynt að draga úr áhyggjum almennings þegar kemur að fasteignakreppunni en Kínverjar hafa verið duglegir að gagnrýna fyrirtæki eins og Evergrande á kínverskum samfélagsmiðlum.
Ákvörðun dómstólsins mun að öllum líkindum hafa enn meiri áhrif á kínverska markaðinn en fasteignageirinn þar í landi samsvarar um fjórðungi af kínverska hagkerfinu.
Meirihluti skulda Evergrande eru í Kína en þarlendir kröfuhafar hafa þó takmörkuð úrræði til að endurheimta fjármagn sitt. Erlendum kröfuhöfum er hins vegar frjálst að höfða mál gegn Evergrande og var því ákveðið að gera það í Hong Kong, þar sem fyrirtækið er líka skráð.