Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu [ESB] fari fram eigi síðar en árið 2027.

Í upphafi kjörtímabils verði óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.

Þegar litið er til síðustu rúmlega tíu ára hefur gengi krónunnar veikst minna gagnvart dollar samanborið við evruna, breska sterlingspundið og gjaldmiðla á Norðurlöndum. Gengi krónunnar hefur þó heilt yfir oftar tekið stærri sveiflum gagnvart dollar á tímabilinu samanborið við hina gjaldmiðlana.

„Seðlabankinn notar myntkörfu af gjaldmiðlum sem hann fylgir. Sjálfkrafa er því minna daglegt flökt á krónunni gagnvart dollar samanborið við evruna. Hins vegar eru fleiri stærri sveiflur á gengi krónunnar en hjá evrunni, sem gefur til kynna að krónan er óstöðugari gjaldmiðill,“ segir Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics.

Þó segir hann að þegar komi að inngöngu Íslands inn í ESB sé það aukaatriði hvort Ísland sé með evru eða íslenska krónu sem gjaldmiðil.

„Það sem mér hefur þótt skrítið við umræðuna um ESB á Íslandi er að nota evruna sem meginástæðu þess að ganga inn í sambandið. Gjaldmiðilinn er aukaatriði.“

„Það að ganga inn í ESB hefur áhrif á alls konar löggjöf; fiskveiði- og landbúnaðarkerfin, innviðauppbyggingu, nýtingu náttúruafla. Þetta yrðu stórvægilegar breytingar fyrir Ísland og eru mikilvægari atriði til að huga að heldur en það hvort við endum með evruna sem gjaldmiðil eða ekki,“ segir Jón að lokum.

Nánar er rætt við Jón Daníelsson í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.