Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu [ESB] fari fram eigi síðar en árið 2027.
Í upphafi kjörtímabils verði óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.
Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir ljóst að með inngöngu í ESB þurfi Ísland að taka upp evru. Þó að Svíar og Danir hafi fengið undanþágu fengi Ísland hana ekki.
Upptaka evru tæki Ísland talsverðan tíma og raunar verði varla búið að taka upp evruna sem gjaldmiðil fyrr en eftir um fimmtán ár.
„Segjum sem svo að við tækjum pólitíska ákvörðun í dag um að ganga inn í ESB, að þá held ég að við værum varla komin með evruna fyrr en árið 2040. Ef við tökum þessa ákvörðun árið 2027 [líkt og segir í stjórnarsáttmálanum] þá yrði evran líklega ekki orðinn gjaldmiðill á Íslandi fyrr en 2042,“ segir Jón.
„Ég er ekki að taka tillit til þess hvort Ísland ætti að fara inn í sambandið og taka upp evru eða ekki. Ég er bara að segja að ef það er vilji fyrir því [að ganga inn í ESB og taka upp evru] þá mun það líklega taka í kringum fimmtán ár,“ bætir Jón við.
Á þessum fimmtán árum þarf m.a. að halda tvennar kosningar á Íslandi um aðildina, fyrst um að halda áfram viðræðum og síðan um sjálfan samninginn.
„Í fyrsta lagi þarf Ísland að taka þá pólitísku ákvörðun sækja um aðild að ESB. Í kjölfarið hefjast samningaviðræður sem við getum áætlað að taki einhvern árafjölda. Síðan þurfa að vera haldnar kosningar á Íslandi um hvort við viljum ganga í ESB, byggt á þeim samningi. Allt þetta ferli við að ganga inn í sambandið tekur í heildina áratug í hið minnsta,“ segir Jón.
Að lokum þarf Ísland að sýna fram á að evran henti hagkerfinu með því að halda gengi krónunnar stöðugu gagnvart evrunni í mörg ár.
„Eftir að við göngum inn í sambandið er síðan svokallað aðlögunarferli sem tekur nokkur ár. Þá taka við gildandi reglur ESB um gjaldmiðla sem eru nokkuð skýrar. Lykilatriði í þeim efnum er að Ísland þarf að sýna fram á að Seðlabankinn geti haldið genginu stöðugu gagnvart evrunni í einhvern árafjölda.
Það er markmið ESB að evran sé réttur gjaldmiðill fyrir löndin sem ganga inn í sambandið. Þegar Ísland hefur sýnt þetta [að gengið geti haldist stöðugt gagnvart evrunni í einhvern árafjölda] er evran tekin upp.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.