Forstjóri danska tæknifyrirtækisins Danfoss, Kim Fausing, varar við því að Evrópa eigi í hættu á að dragast aftur úr í samkeppni við Bandaríkin og Asíu. Hann óttast að stíft regluverk gæti staðið gegn nýsköpun í mikilvægum tæknigeirum.
Í viðtali við Børsen segir hann að lykilmælikvarðar gefi til kynna að Evrópa sé að dragast aftur úr í samkeppni við Bandaríkin þegar kemur að framleiðni, orkuverði og hagvaxtarhorfum. Hann vekur athygli á niðurstöðum nýlegrar úttektar sem hann telur hvað skýrasta dæmið um stöðnun í evrópska hagkerfinu.
„Af 44 svokölluðum krítískum tæknigeirum, þá er Evrópa ekki leiðandi í neinum þeirra. Ekki einum einasta!“ er haft eftir Fausing.
Hann vísar í greiningu áströlsku hugveitunnar ASPI á „krítískum tæknigeirum“ (e. critical technology) þar sem staða stórra þjóða og framfarir þeirra innan viðkomandi geira er mæld. Kína og Bandaríkin eru leiðandi í þeim öflum.
Fausing vil ekki taka of djúpt í árinni en kveðst þó hafa áhyggjur af stöðnun í evrópsku efnahagslífi. Evrópa sé frábært svæði með velmegun og sterkan grunn. Hins vegar telur hann að leiðandi öfl í Evrópu vinni ekki með jafngóðum hætti að aðkallandi efnahagsmálum eins og í Bandaríkjunum og Kína.
„Við getum enn náð þeim. En það krefst þess að við búum til áætlanir og höfum kjark til að veðja á okkar helstu iðnaði. Það mikilvægasta í þessu er að við tökum aftur upp hugarfarið að sækjast eftir að vera leiðandi og fjárfesta svo um munar,“ segir Fausing og kallar eftir að horft verði í auknum mæli á langtímamarkmið til að auka hagvöxt og bæta samkeppnishæfni Evrópu.
Regluverkið of stíft
Fausing, sem hefur verið forstjóri Danfoss frá 2017, telur að ekki hafi verið fjárfest nægilega mikið í nýjum tæknigreinum sem muni móta heiminn á næstu árum. Hann nefnir þar gervigreind, örflögur og ofurtölvur. Sé horft til þessara lykilgeira, þá sé Evrópa einfaldlega ekki í leiðandi stöðu.
Hann leggur til að dregið verði úr stjórnsýslubyrði og upplýsingaskyldu sem tæknifyrirtæki þurfa að lifa með. Í umfjölluninni segir að þrátt fyrir ítrekuð loforð stjórnmálamanna um að draga úr skriffinnsku þá reynist ávallt krefjandi að standa við þau, m.a. þar sem sífellt er verið að innleiða nýjar reglur sem snerta á tækni og loftslagsmálum.
„Ég tel að við þurfum að vera á varðbergi setja ekki of stífar reglur sem gætu staðið gegn nýsköpun (e. regulate innovation away). Við getum notað gervigreind sem dæmi. Við erum stolt af því að setja reglur þar. En það gæti leitt til þess að ekkert evrópskt fyrirtæki nái upp fyrir yfirborðið á þessu sviði. Þetta er ekki gert með sambærilegum hætti annars staðar.“
Í umfjöllun Børsen er einnig vitnað í nýleg ummæli Emmanuel Macron Frakklandsforseta, Olaf Scholz Þýskalandskanslara og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sem hafa öll varað við slökum horfum fyrir efnahagslíf og öryggismál í Evrópu.
Danfoss starfar á sviði rannsókna, þróunar og framleiðslu, sölu og þjónustu á vélrænum og raftæknilegum þáttum fyrir ýmsar iðngreinar. Tæknifyrirtækið er ellefta stærsta fyrirtæki Danmerkur, sé horft til veltu.
Innan Danfoss-samstæðunnar starfa tæplega 42 þúsund manns og félagið er með sölustarfsemi í fleira en 100 löndum. Danfoss er með aðsetur hér á landi að Skútuvogi 6 en íslenskt dótturfélag þess velti 1,7 milljörðum króna árið 2022, samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins, og ársverk voru 11.