Lítið hefur farið fyrir styrkleikum evrópsks atvinnulífs og þeim sviðum sem það stendur hvað fremst á í umræðu um muninn á Evrópu og Bandaríkjunum, sem jafnan hvelfist hvað mest um styrkleika bandarískra tæknifyrirtækja.

„Hin hliðin á þeirri sögu er sú að á ýmsum öðrum sviðum stendur Evrópa nokkuð óumdeilanlega fremst á heimsvísu,“ segir Mark Nichols, sjóðstjóri hjá breska sjóðastýringafyrirtækinu Jupiter Asset Management, og útskýrir að ekki þurfi einu sinni að leita út fyrir tæknigeirann.

„Tækin sem notuð eru til að framleiða hálfleiðara sem dæmi, meira að segja af stærstu hálfleiðaraframleiðendum heims eins og TSMC í Taívan og Texas Instruments í Bandaríkjunum, eru flest framleidd í Evrópu.“

Svo framarlega sé hollenska fyrirtækið ASML á þeim markaði að það sé farið að nálgast einokunarstöðu á heimsvísu. Hann tekur fleiri dæmi á borð við svipað fyrirtæki frá sama landi með mjög svipað nafn, ASMI, og svissneska fyrirtækið VAT sem framleiðir loka sem einnig eru notaðir við framleiðslu hálfleiðara.

„Við finnum svona fyrirtæki á sérhæfðum mörkuðum, ekki aðeins í tækni heldur ýmiss konar iðnaði. Alls konar hugbúnaður sem dæmi.“

Það sem flest þessi fyrirtæki eigi sameiginlegt sé fyrst og fremst að þau selji meira og minna allar sínar flóknu tæknilegu lausnir til annarra fyrirtækja frekar en beint til neytenda. Þau séu einfaldlega ofar í virðiskeðjunni en þau bandarísku.

„Eina undantekningin nýlega, sem þessa dagana er orðið nokkuð vel þekkt nafn meðal almennings, er Novo Nordisk.“

Nánar er rætt við Mark í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.