Segja má að breytt utanríkisstefna Bandaríkjanna hafi vakið Evrópu af værum blundi. Leiðtogar Evrópuríkjanna keppast nú við að kynna áætlanir um auknar fjárfestingar m.a. til varnarmála, og fer Þýskaland þar fremst í flokki.

Þýska þingið samþykkti í síðustu viku breytingar á stjórnarskránni til að ríkið geti aukið skuldsetningu í þágu varnarmála og innviðafjárfestinga. Þar á meðal á að setja á stofn 500 milljarða evra sjóð til slíkra fjárfestinga.

„Evrópa hefur á undanförnum árum dregist aftur úr og farið fram úr sér í regluverki. Skýrsla Mario Draghi sýnir hversu langt hún hefur dregist aftur úr í samkeppni við Kína og Bandaríkin. Evrópa getur ekki lengur reitt sig á ódýra orku frá Rússum og framleiðslu frá Kína til að viðhalda samkeppnishæfni,“ segir Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Eignastýringu Íslandssjóða, og bætir við að fyrirhugaðar aðgerðir Evrópuríkjanna geti aukið hagvöxt, sérstaklega þar sem Seðlabankinn virðist hafa náð tökum á verðbólgu og vöxtum í bili.

Minna regluverk, aukin ríkisútgjöld og meiri hagvöxtur, ásamt hagstæðri verðlagningu, skapi tækifæri fyrir fjárfesta til að dreifa áhættu með kaupum á evrópskum hlutabréfum.

„Evrópskur hlutabréfamarkaður hefur sögulega séð verið verðlagður mun lægra en sá bandaríski meðal annars vegna minni hagvaxtar og strangara regluverks. En ef stjórnvöld draga úr regluverkinu gæti það stutt við hærri kennitölur í Evrópu, þó að bandarísk fyrirtæki verði áfram hærra verðlögð,“ segir Vignir og bætir við að evrópskar vísitölur séu nokkuð frábrugðnar þeim bandarísku.

„Þetta eru fyrst og fremst góð rekstrarfyrirtæki á lágum margföldurum. Evrópski bankageirinn hefur t.d. hækkað um 33% frá áramótum, sem endurspeglar hagvöxt, breytt vaxtaumhverfi og léttara regluverk. Einnig hafa fyrirtæki í lyfjageiranum og öðrum spennandi geirum, sem eru almennt á lægri verðmargföldurum, rutt sér til rúms og aukið breidd markaðarins.“

Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Eignastýringu Íslandssjóða.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jákvæð teikn á lofti

Vignir segir ósamræmda stefnumörkun Evrópuríkja hafa hamlað efnahagsvexti álfunnar til þessa. Ef löndin fari nú að samræma aðgerðir sínar betur, t.d. í innviðafjárfestingum og varnarmálum, gæti það leyst nýjan kraft úr læðingi.

„Hingað til hafa fjárfestar forðast Evrópu vegna þungs regluverks og minni hagvaxtar, en nú eru vonandi breytingar í farvatninu og bregst markaðurinn alltaf hratt við slíkri þróun,“ segir Vignir og bætir við að á sama tíma og jákvæð teikn séu á lofti í Evrópu standi Bandaríkin frammi fyrir tollastríði og samdrætti í hagkerfinu á fyrsta ársfjórðungi.

Þá bendir hann á að nýmarkaðir hafi haldið nokkuð vel að undanförnu. Fjárfestar séu farnir að horfa til tækifæra utan Bandaríkjanna.

„Veiking Bandaríkjadals hefur haft jákvæð áhrif á þessa markaði, þar sem mörg þessara landa skulda í dollar. Þetta er ódýr markaður og þarna geta leynst mikil tækifæri í breyttri heimsmynd.“

Flókið regluverk óheppilegt á óvissutímum

Hann bætir við að of flókið regluverk geti hamlað hagkerfinu á óvissutímum. Ísland sé þar engin undantekning.

„Þegar hagkerfið er í jafnvægi er auðvelt að setja á regluverk sem á að stuðla að öruggara kerfi og betra samfélagi. En á óvissutímum getur of flókið regluverk reynst efnahagnum fjötur um fót. Þetta er lærdómurinn sem Evrópa er að vakna við, og sama gildir fyrir Ísland. Hagkerfið þarf að vera sveigjanlegt til að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.